„Í samkeppni við saltstangir og spjaldtölvuna“

Sara Björk Hauksdóttir stofnandi Spunagaldurs sem gerir Guyde-appið.
Sara Björk Hauksdóttir stofnandi Spunagaldurs sem gerir Guyde-appið. mbl.is/Karítas

Sara Björk Hauksdóttir, myndlistarkona og frumkvöðull, er óhrædd við að skipta um takt í lífinu. Hún mælir með Guyde-appinu fyrir alla þá sem vilja upplifa ævintýri í ferðalögum sínum um landið.

„Við viljum vinna með góðu fólki sem er annt um Ísland og að saga landsins okkar lifi um ókomna tíð. Við erum ekki með neinar fyrirfram gefnar hugmyndir um hvaðan fjármagnið í fyrirtækið eigi að koma en við erum í fjármögnunarferli núna. Guyde-appið eflir sjálfbærni í ferðamennsku og markmiðið er jafnframt að skemmta notandanum, ekki síður en fræða. Þú getur ekki aðeins tekið Guyde með þér hvert á land sem er heldur líka út um allan heim og það talar öll tungumál. Þetta er svona eins og að vera á ferðalagi með afa í framsætinu, sagnfræðingi, náttúrufræðingi og hlaðvarpinu sem þú getur ekki hætt að hlusta á. Guyde er í raun hugsað sem ferðafélagi sem þekkir þig og þínar þarfir. Ég veit að við sem erum alin upp við góða leiðsögn um landið eigum eftir að elska forritið fyrir börnin okkar,“ segir Sara Björk Hauksdóttir, myndlistarkona og frumkvöðull.

Ljósmóðir með meistaragráðu í lögfræði og myndlist

Sara er óhrædd við að prófa nýja hluti. „Ég er myndlistarkona og ljósmóðir að mennt með meistarapróf í lögfræði. Ég lærði lögfræði til að losna undan ljósmæðravöktunum. Ég var þá einstæð móðir og langaði að finna mér áhugavert starf þar sem ég gæti verið með dóttur minni um helgar,“ segir hún.

Eftir námið flutti Sara til Svíþjóðar þar sem hún ákvað að breyta um takt og nema myndlist. „Ég fæddist skapandi. Ég var alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt, taka upp útvarpsþætti, leikrit og teiknaði mikið. Mér finnst allt sem ég hef gert og lært í gegnum tíðina nýtast í starfi mínu sem frumkvöðull. Í ljósmóðurfræðinni lærði ég að tala við fólk og í lögfræðinni lærði ég að það erum við sem sköpum samfélagið okkar.“

Hvernig var lögfræðin?

„Þegar ég hóf meistaranám í lögfræði sat ég í tímum með fólki sem var með BA-menntun í faginu. Það var því mikil áskorun fólgin í því að lesa grunnnámsefnið upp, samhliða framhaldsnáminu en það gekk samt ótrúlega vel. En það var það mikið að gera að ég hef aldrei komist eins nálægt því að byrja að drekka kaffi!“ segir Sara sem fór jafnframt í starfsnám í afvopnunardeild Sameinuðu þjóðanna í New York.

„Á námsárunum lærði ég að það er allt í lagi að mistakast, sem var áskorun fyrir mig, sem hef alltaf verið með allt á hreinu. Það er lærdómsríkt að hafa rangt fyrir sér eða geta ekki eitthvað og átta sig á að það er ekki heimsendir. Oft eru mistökin það fallegasta við lífið, þau eru eins og beygja af þjóðveginum sem leiðir mann nær einhverju ennþá betra. Þess vegna á maður bara að láta vaða ef manni bjóðast spennandi tækifæri sem vaxa manni í augum.“

„Appið er bara stórt listaverk“

Það var í gegnum myndlistina sem Sara varð frumkvöðull að hennar sögn. „Í myndlistinni hrindir maður í framkvæmd ýmsum verkefnum sem eru af þeirri stærðargráðu að ekki er hægt að vinna þær einn. Mér hefði aldrei komið til hugar að gera app áður en ég fór í myndlist. Appið er bara stórt listverkefni,“ segir Sara og vísar í Guyde, sem les staðsetningu og með talgervilstækni og spunagreind getur það sagt sögur og búið til leiðsögn um þá staði sem viðkomandi er á.

„Guyde er sniðið að þér því appið lærir inn á þig og hvað þú vilt heyra. Þú þarft ekki að heyra það sama og næsti aðili með appið er að hlusta á og þú getur beðið appið að gera efni fyrir börnin þín,“ segir Sara sem sjálf er fjögurra barna móðir og hefur því töluverða reynslu af því að ferðast með börn um landið. „Í samtölum sem við höfum átt við erlenda ferðamenn lýsa þeir því einnig sem áskorun að ferðast um Ísland með börn, ekki síst þegar veðrið er rysjótt. Það ætti að vera gaman fyrir alla að ferðast um landið, hér úir og grúir af sögum af draugum, álfum, tröllum og víkingum. Við erum að fara í samkeppni við saltstangirnar og spjaldtölvuna!“

Íslendingar þurfa líka leiðsögn um landið

Meðeigandi Söru í fyrirtækinu er Jón Orri Sigurðarson. Hann er tölvunarfræðingur með víðtæka reynslu í hugbúnaðarþróun og hagnýtingu gervigreindar. „Við ákváðum í fyrsta samtali að gera app sem virkaði fyrir allan heiminn, ekki bara Íslendinga. Tæknin gerir það kleift og ég get alveg ímyndað mér að fólk sem ferðist um um Noreg eða Japan vilji fá svona leiðsögn. Þetta er eitthvað sem hefur ekki verið í boði áður, persónumótanleg leiðsögn í bílinn sem spjallar við þig eins og Alexa eða Siri,“ segir Sara og bætir við að hún hafi sjálf íhugað að kaupa sér rútuferðir á Íslandi til að fá leiðsögn um landið. „Ég held að okkur langi öll að geta deilt sögum með börnum okkar. Hvað fjöllin heita og hvað hefur gerst á þeim stöðum sem við keyrum fram hjá hverju sinni. Við Jón Orri stofnuðum Guyde því við höfðum þá sameiginlegu löngun að vilja vita allt um staðina sem við vorum að heimsækja um landið og okkur fannst vanta leiðsögn í bílinn.“

Gott teymi skiptir máli í stóra samhenginu

Sara segir miklu máli skipta í sprotafyrirtækjum að frumkvöðlarnir deili svipuðum hugsjónum. „Við Jón Orri erum í grunninn mjög lík og erum orðin bestu vinir í gegnum fyrirtækið. Við höfum líka frá upphafi verið sammála um flest, hvernig fyrirtæki við viljum reka og við deilum vissri listrænni sýn en einnig framtíðarsýn. Við tökumst á við áskoranir saman og leysum þær í rólegheitunum, því það er ekkert létt að fara í gegnum það ferli að stofna og reka fyrirtæki saman. Það eru margar ákvarðanir sem við þurfum að taka í sameiningu en svo erum við einnig með algjörlega frábært teymi á bak við okkur,“ segir Sara Björk Hauksdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert