„Krafturinn í konum er magnaður“

Drífa K. Guðmundsdóttir Blöndal, teymisstjóri fyrirtækjalausna Daga.
Drífa K. Guðmundsdóttir Blöndal, teymisstjóri fyrirtækjalausna Daga. mbl.is/Eggert

Hópur öflugra kvenstjórnenda fer fyrir 700 manna starfsliði hjá Dögum og lögð er áhersla á að umhverfið á vinnustaðnum sé fjölskylduvænt og að starfsfólk fái tækifæri til að vaxa í starfi. Traust og góð teymisvinna er lykilatriði í starfseminni að sögn Drífu K. Guðmundsdóttur Blöndal, teymisstjóra fyrirtækjalausna Daga.

„Dagar eru leiðandi þjónustufyrirtæki í fasteignaumsjón, ræstingum og vinnustaðalausnum. Skýrir verkferlar okkar tryggja framúrskarandi þjónustu og erum við sex öflugar konur sem erum teymisstjórar fyrirtækisins. Við störfum með 19 þjónustustjórum, þar sem konur eru einnig í miklum meirihluta og saman förum við fyrir 700 einstaklingum af 40 þjóðernum,“ segir Drífa K. Guðmundsdóttir Blöndal, teymisstjóri fyrirtækjalausna Daga.

„Við Erna Karen Sigurbjörnsdóttir teymisstjóri ferðaþjónustulausna, Elín Bogga Þrastardóttir teymisstjóri útboðslausna, Hugrún Ásdís Þorvaldsdóttir teymisstjóri Norðurlands, Edda Guðrún Gísladóttir teymisstjóri heilbrigðislausna og Guðbjörg Torfadóttir teymisstjóri fasteignaumsjónar hittumst reglulega á fundum og nýtum okkur styrkleika og hugmyndir hver annarrar. Það endurspeglar menninguna hjá Dögum þar sem svo margt byggist á trausti og teymisvinnu,“ segir Drífa.

Sex öflugar konur eru teymisstjórar Daga: Edda Guðrún Gísladóttir, Drífa …
Sex öflugar konur eru teymisstjórar Daga: Edda Guðrún Gísladóttir, Drífa K. Guðmundsdóttir Blöndal, Guðbjörg Torfadóttir, Elín Bogga Þrastardóttir og Erna Karen Sigurbjörnsdóttir. Á myndina vantar Hugrúnu Ásdísi Þorvaldsdóttur, en hún er teymisstjóri Daga á Akureyri. mbl.is/Eggert

Mikilvægt að vinnustaðurinn sé fjölskylduvænn

Dagar hlutu viðurkenningu jafnvægisvogar FKA í fyrra auk þess að vera í hópi framúrskarandi fyrirtækja Creditinfo og fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri samkvæmt Keldunni og Viðskiptablaðinu. Þá eru Dagar með Svansvottaða starfsemi og jafnlaunavottun. „Við leggjum áherslu á að gera hlutina vel og þessar viðurkenningar eru auðvitað hvatning til að gera enn betur,“ segir Drífa.

Árið 2024 var ár breytinga og framfara hjá fyrirtækinu þar sem mannauðsmál voru í lykilhlutverki. Stjórnendaþjálfun var efld til að bæta leiðtogahæfni og stuðla að betri ákvörðunartöku. Þá voru ýmis umbótaverkefni sett af stað sem hafa gefið góða raun. „Breytingarnar fela meðal annars í sér að við leggjum meiri áherslu á teymisvinnu en áður. Við teymisstjórarnir höldum utan um okkar hópa og höfum aukið samvinnu okkar til muna. Rauði þráðurinn er að vinnustaðurinn sé fjölskylduvænn og að það sé góður sveigjanleiki þegar óvæntar aðstæður koma upp hjá starfsfólkinu okkar. Þetta skiptir miklu máli því bakgrunnur og aðstæður fólks geta verið margvíslegar,“ segir Drífa.

Hún nefnir sem dæmi að lögð sé áhersla á að finna vinnutíma sem henti hverjum og einum. „Við reynum eftir fremsta megni að vera sveigjanleg með vinnutímann og tökum tillit til samgöngumáta og annarra þátta sem kunna að skipta máli. Við finnum að starfsfólkið kann virkilega vel að meta þetta og traustið sem því er sýnt með því að hafa sitt að segja um vinnutímann,“ segir hún og bætir við að starfsánægja sé mæld reglulega.

„Starfsfólkið okkar leggur sig fram um að veita framúrskarandi þjónustu alla daga og við teymisstjórarnir leggjum mikið upp úr því að fólk sé ánægt í vinnunni. Við notum mánaðarlegar mælingar frá Moodup til að fylgjast með starfsánægjunni auk þess að leggja okkur fram við að vera í góðu samtali við starfsfólkið.“

Margvíslegir hæfileikar í fjölbreyttum starfsmannahópi

Dagar eru í mörgum tilvikum fyrsta stopp fólks á vinnumarkaði þegar það festir rætur á Íslandi. Fjölbreytileiki innan starfsmannahópsins er mikill og þá skiptir máli að geta sett sig í spor annarra og að koma auga á margvíslega hæfileika sem leynast í starfsmannahópnum að sögn Drífu. Hún segir fyrirtækið líta á það sem samfélagslega skyldu sína að taka vel á móti þeim sem flytja til landsins og sameinast fjölskyldum sínum. Fyrirtækið vilji leggja sitt af mörkum og sérstök áhersla sé lögð á að gefa fólki tækifæri til að þróast í starfi. „Við erum mjög meðvituð um styrkleika fólks enda mörg störf í boði hér og horfum við frekar inn á við þegar við ráðum í yfirmannsstöður heldur en að leita út fyrir fyrirtækið. Við viljum vera jákvætt fyrsta stopp og hvetja fólk áfram.“

Drífa nefnir að það sé sérstaklega aðdáunarvert að horfa til kvennanna í fyrirtækinu sem margar hverjar hafa flutt einar til landsins með börnin sín. „Sumar þeirra tala í upphafi hvorki íslensku né ensku en vinna ötullega í því að koma sér inn í íslenskt samfélag og starfa nú margar hverjar í stjórnunarstöðum hjá Dögum.“

Góð samskipti grunnurinn að heilbrigðri fyrirtækjamenningu

Góð stjórnun byggist á góðum samskiptum að mati Drífu en þar sem starfsmannahópurinn kemur frá 40 mismunandi löndum hafa Dagar lagt áherslu á að innleiða lausnir í þeim málum. Þar má nefna sérstakt Daga-app þar sem finna má hagnýtar upplýsingar, fréttir, fræðslu og þjálfun auk afþreyingar sem Drífa segir nýtast mjög vel.

„Það eru hagnýtar upplýsingar í Daga-appinu okkar og má þar nefna sérstaka kynningu sem nefnist Velkomin til Íslands. Það eru praktískar upplýsingar um hvernig er að flytja til landsins, upplýsingar um heilbrigðismál, leikskóla og skóla svo eitthvað sé nefnt. Í forritinu eru alls konar flottir námspakkar og mikið af upplýsingum í boði.“

Þá voru Dagar fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að gera samstarfssamning um notkun á Bara tala- smáforritinu til að efla íslenskunám. „Bara tala er frábært app sem er einfalt í notkun. Við erum stolt af því að geta boðið starfsfólki upp á þennan góða valkost þar sem það getur lært íslensku á sínum hraða.“

Samvinna besta leiðin til árangurs

Hátt í 90% starfsmanna Daga eru konur og Drífa segist afar stolt af því. „Ég hugsa oft hvað við erum heppin að sjá kvenfyrirmyndir svona víða í íslensku samfélagi. Hjá okkur sjáum við svo þennan mikla styrk í konum sem flytja frá útlöndum til að byggja upp gott líf fyrir sig og börnin sín, þær láta sitt svo sannarlega ekki eftir liggja. Krafturinn í þessum konum er magnaður.“

Drífa segir samvinnu teymisstjóranna ganga vonum framar. „Teymisvinnan okkar á milli er eins og vel smurð vél. Það má ekki gleymast að störfin sem starfsfólk Daga sinnir eru gríðarlega mikilvæg, þetta eru grunnstoðir samfélagsins sem þurfa að vera í lagi. Við teymisstjórarnir leggjum mikla áherslu á að vera til staðar hver fyrir aðra og finna lausnir og tækifæri í sameiningu. Þannig náum við árangri. Við tölum aldrei um að eitthvað sé ekki hægt heldur einblínum við á tækifærin og möguleikana. Við lyftum hver annarri upp og sigur einnar okkar er sigur okkar allra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert