„Íslandsbanki hefur um langt skeið verið mikill jafnréttisbanki sem skýrist meðal annars af því að fyrrverandi bankastjóri var lengi vel eina konan sem stýrði banka hér á landi og um tíma eini kvenforstjórinn í Kauphöllinni. Við höfum lagt mikla áherslu á jafnréttismál, bæði inn á við og út á við, og höfum til að mynda haldið fjölmarga fundi um jafnréttismál í gegnum tíðina og var fundurinn okkar um Ljónin í veginum árið 2015 einn af þeim fyrstu þar sem yfir 700 konur mættu. Í kjölfarið fjölluðum við um konur og fjárfestingar, atvinnugreinar og kynin, hvernig Ísland geti verið forystuþjóð í jafnréttismálum og nú hafa vel yfir 2.000 manns sótt þessa fundi,“ segir Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka.
„Við förum inn í nýtt ár fullar bjartsýni. Í lok síðasta árs úthlutaði frumkvöðlasjóður Íslandsbanka samtals 50 milljónum til 14 frumkvöðlaverkefna og voru 29% þeirra til kvennateyma, 19% til karlateyma og 52% til blandaðra teyma. Það er greinilegt að konur eru að láta til sín taka í frumkvöðlageiranum í auknum mæli, sem er auðvitað frábært,“ segir Rakel Ásgeirsdóttir, forstöðumaður skrifstofu bankastjóra Íslandsbanka.
Edda hóf störf hjá bankanum árið 2015 sem samskiptastjóri. Undir sviðið sem hún leiðir, Markaðs- og samskiptasvið, falla markaðsmál og sala, greiningardeild, vefmál, fjárfestatengsl, samskiptamál og ný vildarþjónusta sem kallast Tindur og er hugsuð fyrir viðskiptavini sem eru í umfangsmiklum viðskiptum við bankann. Edda situr jafnframt í framkvæmdastjórn Íslandsbanka og er varaformaður fjárfestingaráðs. Hún er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið stjórnendanámi í IESE ásamt því að hafa lokið prófi í verðbréfaréttindum. Rakel hóf störf í bankanum árið 2016 í Innri endurskoðun og varð regluvörður bankans árið 2023. Rakel stýrir nú skrifstofu bankastjóra og kemur þar að ýmsum innleiðingarverkefnum sem tengjast daglegum rekstri Íslandsbanka. Rakel situr einnig í framkvæmdastjórn bankans. Hún er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík með lögmannsréttindi og hefur lokið prófi í verðbréfaréttindum.
„Við erum líka sérlega stolt af því að hefja árið sem bakhjarl nýrrar leikinnar þáttaraðar um Vigdísi Finnbogadóttur sem er okkur mörgum mikil fyrirmynd. Við héldum sérstaka forsýningu á fyrsta þættinum á aðventunni fyrir fullum sal af konum og það var gaman að heyra nokkur orð um jafnréttismálin, frá Höllu Tómasdóttur forseta, áður en sýningin hófst,“ segir Edda.
Í þessum anda taka þær enn fleiri skref á þessu ári þar sem horft er á jafna þátttöku allra á vinnumarkaði. „Yfir 18% íbúa eru innflytjendur og það er mikilvægt að bankinn taki virkan þátt í að efla fjármálalæsi allra, bæði ungra drengja og stúlkna og bjóða upp á gott aðgengi að bankaþjónustu á fleiri tungumálum,“ segir Rakel og bætir við að á síðustu misserum hafi bankinn aukið fræðslu fyrir öll. „Við viljum einnig tryggja að ungt fólk fái öfluga fjármálafræðslu á þeim vettvangi sem hentar þeim.“
Leggið þið áherslu á að við setjum fjárhagslega heilsu í forgrunn í upphafi ársins?
„Haustið 2023 byrjuðum við að endurskoða staðsetningu bankans á markaði og það var á síðasta ári þar sem við tókum enn frekari skref í að samtvinna fjárhagslega heilsu inn í stefnu bankans. Það má því segja að heilsan sé okkar leiðarljós í því sem við gerum enda finnum við að viðskiptavinir og starfsfólk tengja vel við þá stefnu. Við höfum lengi verið aðalstyrktaraðilar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka, sem er eitt stærsta lýðheilsuverkefni landsins, og leggjum mikla áherslu á vellíðan starfsfólks í vinnu. Núna tölum við því um 100% heilsu; fjárhagslega, líkamlega og andlega,“ segir Rakel.
Að sögn Eddu er það sérstaklega unga fólkið í landinu sem hefur áhuga á að læra meira um fjármálin sín. „Við nýttum okkur mikið af rannsóknum og samtöl við viðskiptavini til að útfæra fjárhagslegu heilsuna. Við höfum um langt skeið verið leiðandi í fjármálafræðslu og við finnum sérstaklega mikinn áhuga núna á fjármálum hjá ungu fólki. Þau vilja læra um sparnað og fjárfestingar og þekkja húsnæðislánamarkaðinn vel. Á sama tíma sjáum við að fjárhagsáhyggjur hafa verið að aukast hjá öllum aldurshópum og sérstaklega yngsta aldurshópnum eða Z-kynslóðinni sem er fædd á árunum 1997-2008. Vissulega hefur efnahagsumhverfið verið krefjandi í hávaxtaumhverfi og því eðlilegt að áhyggjur séu meiri. En við höfum fundið þessa breytingu yfir lengra tímabil sem sést meðal annars á auknu framboði á upplýsingum um fjármál, hvort sem það eru bækur, hlaðvörp eða efni á samfélagsmiðlum,“ segir Edda.
Hvaða fræðslu er fólk að sækjast eftir núna?
„Það er mjög áhugavert að sjá hvernig fræðslan hefur verið að breytast. Þúsundir hafa sótt bæði fundina okkar eða horft á netinu en það fer aðeins eftir viðfangsefni hvað hentar fólki. Við höfum líka búið til styttra og hnitmiðaðra fræðsluefni á samfélagsmiðlum og bankinn var fyrstur til að nýta sér samfélagsmiðilinn TikTok til að miðla fjármálafræðslu til ungs fólks. Á árinu sóttu um 1.000 manns fundi um fjármál við starfslok, sem eru mjög gagnlegir fundir enda mikið til af upplýsingum um lífeyrismál sem getur verið flókið að skilja. Fundir okkar um fjármál í fæðingarorlofi hafa líka verið mjög vinsælir og eru með vinsælli námskeiðum okkar en þar henta betur fundir á netinu enda oft fólk sem er ýmist í barnahugleiðingum eða barn nýlega komið undir og að ýmsu að huga,“ segir Edda brosandi.
Að þeirra sögn hefur verið áhugavert að hafa áhrif á hugarfar starfsfólks bankans. „Við höfum tekið starfsfólk mikið með okkur í stefnumótunina sem og unnið með öflugum ráðgjöfum. Þetta snýst um að fá allt starfsfólk bankans til að tengja fjárhagslega heilsu við hlutverk bankans sem er að vera hreyfiafl til góðra verka,“ segir Rakel og útskýrir að þetta þýði að starfsfólk tengir fjárhagslega heilsu viðskiptavinarins við allt sem það gerir í störfum sínum. „Við þurfum að hugsa það í vöruþróun á tæknilausnum, hvaða fjármálavörur við eigum, hvernig við tölum við viðskiptavininn og hvernig við setjum efnið fram,“ segir Rakel og bætir við: „Þá skiptir einnig máli að bankinn geti fjármagnað sig á góðum kjörum því það hefur áhrif á þau kjör sem við getum boðið okkar viðskiptavinum og um leið á fjárhagslega heilsu þeirra og bankans sömuleiðis. Þessi áhersla nær þannig inn í alla okkar starfsemi.“
Edda segir einnig mikilvægt að tala á mannamáli um fjármál og skilja þarfir viðskiptavina bankans. „Það á að vera auðvelt að biðja bankann um að aðstoða sig, hvort sem það er í fjárfestingum eða til að brúa erfið mánaðamót. Við erum líka að nýta gögnin í enn frekari mæli til að þekkja viðskiptavininn og skilja þarfirnar því tækifærin liggja í að vita hvað viðskiptavinur gæti þurft áður en hann biður um það. Við höfum jafnframt verið að horfa á markhópa út frá þjónustuþörfum, í stað þess að horfa á lýðfræðilegar breytur. Tindur, ný vildarþjónusta bankans, fór í prófanir á dögunum og hefur gengið vonum framar, en þar erum við að horfa til viðskiptavina sem eru í umfangsmiklum viðskiptum. Oft eru þetta viðskiptavinir sem eru bæði með fyrirtækið sitt og sín persónulegu viðskipti hjá bankanum og við viljum tryggja enn meiri samfellu í þjónustunni og hjálpa viðskiptavininum að fá enn betri yfirsýn,“ segir Edda.
Íslandsbanki hefur lengi haft það orð á sér að konur séu valdefldar innan bankans og hljóti framgöngu. „Í framkvæmdastjórn sitja sjö konur, fjórar eru framkvæmdastjórar og þrjár eru áheyrnarfulltrúar. Við erum til að mynda með þrjár konur sem stýra öllum tekjusviðum bankans sem er algert einsdæmi. Ég tók sæti í framkvæmdastjórn bankans árið 2017, þá var ég 31 árs og yngsti stjórnandinn í bankanum. Það er mikill hluti af menningu bankans að gefa ungu fólki tækifæri og um langt skeið hafa jafnréttismálin verið rædd eins og hver önnur mikilvæg mál inni á borði framkvæmdastjórnar. Jafnréttismálin verða aldrei neinn hliðarveruleiki við starfsemina, sem er mjög mikilvægt. Þetta á ekki aðeins við um kyn heldur ræðum við jafna möguleika allra,“ segir Edda.
Rakel varð einnig hluti af framkvæmdastjórn bankans árið 2023. „Ég tek undir með Eddu að jafnréttismenningin sé mjög sterk innan bankans. Það er mikið lagt upp úr því að teymi séu samsett af ólíku fólki til að búa til besta liðið. Það er líka skemmtilegt að við erum með ansi mikið af íþróttakempum í stjórnendahópnum og líkjum okkur því stundum við fótboltalið þar sem nauðsynlegt er að hópurinn hafi samstillt markmið, fjölbreytta styrkleika, styðji hvert við annað og efli fólk í nýjum hlutverkum,“ segir Rakel.
Íslandsbanki er í góðu samstarfi við Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og var um árabil aðalstyrktaraðili félagsins. „Það er mikill kraftur í félaginu og nýlega höfum við unnið saman í tengslum við New Icelanders eða nýja Íslendinga. Markmiðið er að efla konur í eigin rekstri að fóta sig í íslensku atvinnulífi. Það er mikill kraftur í samtökunum og gaman að fylgjast með hvernig starfsemin hefur verið að eflast með hverju árinu,“ segir Rakel.
Þegar kemur að áherslum í jafnréttismálum næstu ár segja þær mjög mikilvægt að við eigum sterkar kvenfyrirmyndir. „Og þó að konur séu nú áberandi á flestum sviðum fjármálastofnana þá þarf að efla þátt kvenna á ákveðnum sviðum eins og til dæmis í fjárfestingarbönkum og á upplýsingatæknisviðum. Þar er mikilvægt að það séu sett skýr markmið og allir hjálpist að við að búa til réttu blönduna af fólki,“ segir Rakel.
Sem betur fer höfum við náð mjög langt í jafnréttismálum á Íslandi og því er mikilvægt að tala um jafnrétti út frá fleiri þáttum en kyni, sérstaklega í samfélagi sem er mjög fjölbreytt, að mati Eddu. „Fjármál eru undirstaða og hreyfiafl til svo margs, til að stofna heimili og fyrirtæki og því er mikilvægt að við eflum unga drengi, ungar stúlkur og öll kyn í fjármálafræðslu og þekkingu. Við erum spennt fyrir þeirri vegferð og hjálpum til við að viðskiptavinir okkar setji sér ekki eingöngu líkamleg og andleg áramótaheit á nýju ári, heldur einnig fjárhagsleg markmið,“ segja Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, og Rakel Ásgeirsdóttir, forstöðumaður skrifstofu bankastjóra Íslandsbanka.