Starfsfólk lyft grettistaki á krefjandi tímum

Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og staðgengill …
Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og staðgengill forstjóra. mbl.is/Eyþór

Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og staðgengill forstjóra, horfir björtum augum til nýs árs. Að baki er ótrúlegt ár í návígi við náttúruöflin sem fyrirtækið hefur byggt starfsemi sína á í hálfa öld. Síðustu misseri hafa verið krefjandi fyrir Björk og samstarfsfólk hennar en fyrirtækið stendur traustum fótum.

„HS Orka er þriðji stærsti orkuframleiðandinn á Íslandi og hefur alla tíð verið frumkvöðull í jarðhitanýtingu og nýsköpun henni tengdri eins og Auðlindagarðurinn okkar ber vitni um,“ segir Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatækni-sviðs HS Orku, og bendir á að um þessar mundir fagni fyrirtækið 50 ára afmæli sínu. „Hér starfar, og hefur starfað, einstakur hópur fólks sem hefur byggt fyrirtækið upp af metnaði og lyft grettistaki til að halda uppi eðlilegri starfsemi síðustu misseri.“

Björk hefur starfað hjá HS Orku frá upphafi árs 2020. „Tómas Már Sigurðsson var þá nýráðinn forstjóri og fjölmörg spennandi verkefni voru í pípunum. Við höfum stækkað umtalsvert frá þeim tíma og þessi fimm ár hafa verið einstaklega áhugaverð, ekki síst reynslan sem við höfum öðlast við rekstur á mikilvægu innviðafyrirtæki, bæði í heimsfaraldri og í skugga náttúruhamfara,“ segir Björk.

Dýrmæt ár erlendis

Björk er Hafnfirðingur í húð og hár. Eftir viðskiptafræðinám hér heima tók við starfsnám í Bandaríkjunum sem leiddi hana óvænt til München í Þýskalandi. Það reyndust örlagarík vistaskipti því þar kynntist hún eiginmanni sínum, Erik Figueras, sem nú starfar sem forstjóri Mílu á Íslandi. Þau fluttu saman til Frakklands og árin erlendis urðu samtals átta en þá fluttu þau heim og stofnuðu fjölskyldu í Hafnarfirði. „Við eigum tvær dásamlegar dætur og þótt Erik sé frá Barcelona er hann stundum íslenskari en ég. Okkur líður vel hér en við búum að dýrmætri reynslu erlendis frá. Eftir heimkomuna starfaði ég hjá nýsköpunarfyrirtæki sem leiddi mig til Búnaðarbankans, sem síðar varð Kaupþing og Arion banki þar sem ég starfaði til ársins 2016. Þá tóku við ráðgjafarstörf og stjórnarsetur hér heima og annars staðar á Norðurlöndunum þar til ég gekk til liðs við HS Orku.“

Uppbygging HS Orku stendur upp úr

Björk er stolt af því að starfa fyrir HS Orku en saga fyrirtækisins spannar hálfa öld. Hitaveita Suðurnesja, forveri HS Orku, var stofnuð á gamlársdag árið 1974 og fagnar því fyrirtækið 50 ára afmæli um þessar mundir. Ríki og sveitarfélög á Suðurnesjum tóku höndum saman, fyrst við framleiðslu á heitu vatni í Svartsengi og síðar raforku, en í dag nýta ýmis fyrirtæki fleiri strauma frá auðlindinni og er Auðlindagarður HS Orku vettvangur þeirra.

Að mati Bjarkar stendur heilbrigður og góður vöxtur fyrirtækisins upp úr á síðustu fimm árum: „Við lukum við stækkun Reykjanesvirkjunar fyrir tveimur árum og stækkun og endurbótum orkuversins í Svartsengi lýkur á þessu ári. Þetta eru framkvæmdir sem nema samtals um 25 milljörðum króna. Árið 2020 var fyrsta vatnsaflsvirkjun HS Orku gangsett en það er Brúarvirkjun í grennd við Geysi í Biskupstungum, og nýjasta vatnsaflsvirkjunin okkar bættist svo við árið 2023 þegar við festum kaup á Fjarðarárvirkjunum í Seyðisfirði.“

Konur í lykilstöðum

Alls starfa 18 konur hjá HS Orku en þær eru aðeins fimmtungur alls starfsliðsins. Hlutfall iðn- og tæknimenntaðra er almennt hátt hjá orkufyrirtækjum og enn finnast fáar konur í þeirra hópi. Konur gegna hins vegar lykilstöðum innan HS Orku að sögn Bjarkar. „Við erum stoltir handhafar Jafnvægisvogar FKA en af sjö framkvæmdastjórum erum við þrjár konur auk þess sem tvær konur sitja í fjögurra manna stjórn fyrirtækisins. Tæknisvið, fjármálasvið, lögfræðisvið, auðlindastýring og mannauður eru leidd af konum og þær hafa staðið í stafni í flestum þeim aðgerðum sem grípa hefur þurft til vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi. Þær eru hluti af neyðarstjórn HS Orku sem stendur sólarhringsvaktir þegar hættuástand varir og allt kapp þarf að leggja á öryggi starfsfólks og órofna starfsemi. Við höfum náð að halda framkvæmdum við stækkun Svartsengis gangandi í frábæru samstarfi við verktaka og búið er að vinna upp ýmsar tafir sem orðið hafa vegna hamfaranna. Hér skiptir höfuðmáli samstillt átak fjölmargra aðila undir forystu ríkisins við gerð varnargarðanna við Svartsengi,“ segir Björk.

Konurnar í HS Orku samankomnar í Svartsengi í upphafi árs …
Konurnar í HS Orku samankomnar í Svartsengi í upphafi árs í fyrsta sinn síðan skrifstofur fyrirtækisins þar voru rýmdar vegna jarðhræringa fyrir 15 mánuðum. Í dag eru skrifstofurnar til húsa bæði í Krossmóa í Reykjanesbæ og Turninum í Kópavogi. Fremri röð frá vinstri: Íris Björk Rúnarsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir, Aðalheiður Níelsdóttir, Lilja Magnúsdóttir, Marín Ósk Hafnadóttir, Arna Grímsdóttir og Petra Lind Einarsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Andrea Guðnadóttir, Arna Björg Rúnarsdóttir, Kristín Birna Ingadóttir, Hanna Blanck, Alma Gytha HuntingtonWilliams, Birna Lárusdóttir, Andrea Ósk Frímannsdóttir, Valdís Guðmundsdóttir og Björk Þórarinsdóttir. Á myndina vantar einungis Katrínu Unni Ólafsdóttur sem er í fæðingarorlofi. mbl.is/Eyþór

Endurfjármögnun með eldgos í bakgarðinum

Eitt stærsta verkefni fjármálateymisins á þessum tíma hefur verið endurfjármögnun fyrirtækisins. „Við settum af stað vinnu við hana í byrjun árs 2023 og leituðum hófanna á fjármálamörkuðum innanlands og utan. Markmiðið var að sækja 40 milljarða íslenskra króna til innlendra og erlendra banka og lánveitenda á bandaríska skuldabréfamarkaðinum.“

En þá greip náttúran í taumana. „Jarðskjálftar og eldsumbrot voru steinsnar frá orkuverinu og allt í beinni í heimsfréttunum. Við fengum fyrsta gosið, annað, þriðja og svo fjórða. Erlendu bankarnir sem ætluðu að lána okkur þurftu í ljósi hasarfrétta að staldra við og skilja betur áhættuna af eldgosum og hraunflæði við Svartsengi. Íslensku bankarnir skildu stöðuna betur. Að endingu voru erlendir bankar einnig tilbúnir að lána okkur að því gefnu að tryggingar HS Orku fengjust endurnýjaðar en þær þarf að endurnýja árlega. Það tókst og við njótum nú sömu tryggingaverndar og áður þar sem jarðskjálftar, hraunflæði og eldgos eru ekki undanskilin verndinni. Eftir 18 mánaða vinnu, spúandi eldgos í bakgarðinum og viðstöðulausar fréttir af ógninni, sem steðjaði að innviðum í Svartsengi, tókst okkur að ljúka endurfjármögnuninni.“

Björk segir varnargarðana við Svartsengi hafa skipt sköpum við að ná samningum við tryggingafélög og banka sem mátu rekstraráhættu orkuversins í Svartsengi ásættanlega og sýndu þannig tiltrú á rekstri HS Orku til framtíðar.

Spennandi verkefni í burðarliðnum

Verkefnum Bjarkar og samstarfsfólks hennar hjá HS Orku er þó hvergi nærri lokið. Framundan eru rannsóknir og uppbygging orkuvinnslu í Krýsuvík, þar sem fyrirhuguð er heitavatnsvinnsla fyrir ört stækkandi höfuðborgarsvæði og raforkuframleiðsla í góðri sátt við umhverfi og samfélag. Fleiri mikilvæg verkefni bíða víða um land, meðal annars á Vestfjörðum í gegnum dótturfélagið VesturVerk, en þar ber virkjun Hvalár í Ófeigsfirði hæst.

„Við erum því ekki af baki dottin og horfum bjartsýnum augum á tækifærin sem bíða okkar á næstu 50 árum,“ segir Björk að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert