Eflum stöðu kvenna í forystu

Stjórn FKA Framtíðar, frá vinstri: Sjöfn Arna Karlsdóttir, Margrét Hannesdóttir, …
Stjórn FKA Framtíðar, frá vinstri: Sjöfn Arna Karlsdóttir, Margrét Hannesdóttir, Amy Dyer, Inga Lára Jónsdóttir og Sandra Sif Stefánsdóttir. Ljósmynd/Silla Páls

Fé­lag kvenna í at­vinnu­líf­inu hef­ur verið leiðandi hreyfiafl í rúm­an ald­ar­fjórðung en til­gang­ur fé­lags­ins er að styrkja enn stöðu kvenna í ís­lensku at­vinnu­lífi og fjölga kon­um í stjórn­un­ar­stöðum og í eig­in rekstri. Starf­semi FKA fel­ur í sér fjöl­breytta viðburði á borð við morg­un­fundi, fræðslu og nám­skeið og inn­an FKA eru til að mynda þrjár öfl­ug­ar deild­ir; Leiðtoga­Auður, FKA Framtíð og At­vinnu­rek­enda­Auður. 

„Að skrá mig í FKA Framtíð er ein besta fjár­fest­ing sem ég hef gert. Dýna­mík­in og kven­mátt­ur­inn í FKA Framtíð finnst ekki á hverju strái og það sem mér þykir best er að all­ar fé­lags­kon­ur eru með svipað mark­mið en það finnst eng­in sam­keppni. Bara stuðning­ur, sam­vinna og vin­semd,“ seg­ir Amy Dyer formaður FKA Framtíð en hún gekk í FKA árið 2022 af því að hún var ný­bú­in að stofna fyr­ir­tæki.

„Ég gerðist auðvitað strax fé­lags­kona í FKA Framtíð enda und­ir þrítugu og fékk 50% af­slátt af fé­lags­gjöld­um. Eft­ir tvö ár sem fé­lags­kona bauð ég mig fram til stjórn­ar FKA Framtíðar og hlaut for­mennsku. Þetta sýn­ir að kon­um eru gef­in tæki­færi inn­an FKA og að manni raun­veru­lega eru all­ir veg­ir fær­ir.“

All­ir veg­ir fær­ir

Aðspurð hver sé til­gang­ur FKA Framtíðar seg­ir Amy að deild­in eigi að vera stökkpall­ur fyr­ir þær sem vilja skapa sér ný tæki­færi og ná lengra í framþróun. „FKA Framtíð er deild inn­an FKA sem sam­ein­ar fram­sækn­ar kon­ur og legg­ur áherslu á styrk­ingu tengslanets og hag­nýta fræðslu sem nýt­ist í einka­lífi sem og í starfi. Þemað hjá okk­ur í ár er „Þér eru all­ir veg­ir fær­ir“ og því trú­um við heils­hug­ar að sé rétt. Þú get­ur allt sem þú ætl­ar þér, FKA Framtíð mun aðstoða þig að ná þínum mark­miðum með stuðningi og þekk­ing­armiðlun,“ seg­ir Amy og bæt­ir við að eitt það dýr­mæt­asta við að hafa gengið í FKA Framtíð séu vin­kon­urn­ar.

„Dýr­mæt­ast þykir mér að hafa eign­ast góðar vin­kon­ur en þær öfl­ugu kon­ur sem skipa stjórn FKA Framtíðar með mér komu hrein­lega eins og kallaðar inn í líf mitt. Að eiga góða að er svo ómet­an­legt og þess­ar kon­ur eru mín­ar klapp­stýr­ur sem og ég þeirra.“

Stjórn LeiðtogaAuðs: Svanhildur Jónsdóttir, Elfa Björg Aradóttir, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, …
Stjórn Leiðtoga­Auðs: Svan­hild­ur Jóns­dótt­ir, Elfa Björg Ara­dótt­ir, Erla Ósk Ásgeirs­dótt­ir, Elín Gränz, Ásdís Arna Gott­skálks­dótt­ir. Á mynd­ina vant­ar Ásu Karín Hólm. Ljós­mynd/​Aðsend

Efl­um stöðu kvenna í for­ystu

„Ræt­ur Leiðtoga­Auðar liggja 25 ár aft­ur í tím­ann þegar hóp­ur kvenna fór í stjórn­endaþjálf­un á Mý­vatni í tengsl­um við verk­efnið „AUÐUR í krafti kvenna“ sem stóð yfir á ár­un­um 2000-2003. Þær kon­ur tóku með sér þaðan dýr­mæt­an lær­dóm sem þær nýttu til að hreyfa við hlut­un­um í at­vinnu­líf­inu. Frá þeim tíma hef­ur hóp­ur­inn stækkað og nýj­ar kon­ur bæst við, með það að mark­miði að efla stöðu kvenna í for­ystu­hlut­verk­um,“ seg­ir Svan­hild­ur Jóns­dótt­ir formaður Leiðtoga­Auðar en það er deild inn­an FKA sem er sér­stak­lega ætluð kon­um með yf­ir­grips­mikla stjórn­un­ar­reynslu í einka­geir­an­um og op­in­bera geir­an­um.

Fé­lags­kon­ur í Leiðtoga­Auði til­heyra for­ystu­sveit ís­lensks at­vinnu­lífs, þar sem þær gegna eða hafa gegnt ábyrgðar­stöðum og vilja vera öðrum kon­um hvatn­ing, fyr­ir­mynd og stuðning­ur í efl­ingu ís­lensks at­vinnu­lífs.

Tengslanet og orðspor

Aðspurð hvernig það hafi styrkt hana að vera í FKA seg­ir Svan­hild­ur að fé­lagið hafi gefið henni tæki­færi á að efla tengslanetið og kynn­ast fjöl­breytt­um kon­um. Að finna fyr­ir hvatn­ingu og já­kvæðni frá öðrum kon­um.

„Svo fæ ég líka tæki­færi til að heyra af áskor­un­um og sigr­um í fjöl­breytt­um at­vinnu­geir­um, bæði til að læra af reynslu annarra og að fá inn­blást­ur. Það er ánægju­legt að sjá hvað kon­ur eru komn­ar í marg­ar áhrifa­stöður í sam­fé­lag­inu og vona ég að það smit­ist enn frek­ar út í at­vinnu­lífið og að hlut­fall kvenna í til dæm­is fram­kvæmda­stjórn­um hækki en það er rétt rúm­lega 20% í dag. Yf­ir­skrift þessa starfs­árs hjá Leiðtoga­Auðum er ein­mitt: Leiðin að stjórn­ar­stóln­um – þekk­ing á óskrifuðum leik­regl­um skipt­ir máli. Verk­efni árs­ins snýr að því að varpa ljósi á þær óform­legu regl­ur sem hafa áhrif á það hverj­ir kom­ast inn í stjórn­ir fyr­ir­tækja, þar á meðal tengslanet, orðspor og stuðning­ur lyk­ilaðila. Þetta eru regl­ur sem oft eru ósýni­leg­ar en skipta sköp­um þegar kem­ur að því að fá sæti við borðið þar sem stefnu­mót­andi ákv­arðanir eru tekn­ar.“

Vera virk og tengj­ast öðrum kon­um

Svan­hild­ur hvet­ur kon­ur til að ganga í FKA og seg­ir að þær hafi engu að tapa en allt að vinna með því að prufa FKA. „Það er mjög fjöl­breytt­ur hóp­ur kvenna í FKA og hver og ein get­ur pottþétt tengt við ein­hverja. Það er gott að hugsa um það að það eru marg­ar í sömu spor­um, ný­byrjaðar í FKA, mögu­lega ein­ar eða komn­ar til að tengj­ast fleir­um,“ seg­ir Svan­hild­ur en tek­ur fram að það sé hins veg­ar und­ir hverri og einni komið að mæta, vera virk og tengj­ast. Þar liggi gald­ur­inn. „

Ég mæli með Mentor-pró­gramm­inu í FKA framtíð en sjálf tók ég þátt í því fyr­ir nokkr­um árum. Enn þann dag í dag leita ég stund­um til míns mentors. Og svo er ég núna sjálf mentor í verk­efn­inu og fæ mikið út úr því.“

Stjórn AtvinnurekendaAuðs, efst frá vinstri: Margrét Reynisdóttir, Anna M. Björnsdóttir, …
Stjórn At­vinnu­rek­enda­Auðs, efst frá vinstri: Mar­grét Reyn­is­dótt­ir, Anna M. Björns­dótt­ir, Jón­ína Bjart­marz, Katrín Rós Gým­is­dótt­ir og Aðal­heiður Karls­dótt­ir. Neðri röð frá vinstri: Ragn­heiður Ásmunds­dótt­ir, Krist­ín Ýr Pálm­ars­dótt­ir og Ásta Sveins­dótt­ir. Á mynd­ina vant­ar Krist­ínu Björgu Jóns­dótt­ur. Ljós­mynd/​Silla Páls

Stuðning­ur við at­vinnu­rek­end­ur

„At­vinnu­rek­enda­Auður er fé­lag inn­an FKA-regn­hlíf­ar­inn­ar sem er sér­stak­lega ætlað kon­um sem eiga og reka fyr­ir­tæki,“ seg­ir Jón­ína Bjart­marz formaður deild­ar­inn­ar og legg­ur áherslu á að fé­lagið skapi vett­vang þar sem kon­ur í at­vinnu­rekstri geta vaxið, eflt tengslanet sitt og fengið stuðning við að tak­ast á við áskor­an­ir sem mæta þeim sem fyr­ir­tækja­eig­end­um.

„Mark­mið At­vinnu­rek­enda­Auðs er að standa vörð um hags­muni fé­lags­kvenna, veita sér­hæfðan stuðning og bjóða upp á fræðslufundi sem miða að þörf­um og áhuga­sviði þeirra.“

Mik­il fjölg­un fé­lags­kvenna

Jón­ína tek­ur fram að skil­yrði aðild­ar að At­vinnu­rek­enda­Auði sé að eiga og reka fyr­ir­tæki, hvort held­ur sem er ein­ar eða með öðrum, hafa verið með rekst­ur eða hyggja á sjálf­stæðan rekst­ur.

„Það hef­ur verið ein­stak­lega gef­andi að vera í At­vinnu­rek­enda­Auði öll þessi ár og það sem hef­ur verið einna mest gef­andi er hve fé­lags­kon­um hef­ur fjölgað. Þegar fé­lagið var stofnað árið 2013 voru 34 kon­ur sem sóttu stofn­fund­inn og í dag erum við að nálg­ast 500 fé­lags­kon­ur. Marg­ar þess­ara kvenna eru líka mjög virk­ar í starfi At­vinnu­rek­enda­Auðs, til­bún­ar að taka þátt í viðburðum, fyr­ir­tækja­kynn­ing­um sem og alls kyns ferðum, bæði inn­an­lands og utan,“ seg­ir Jón­ína og bæt­ir við að virk þátt­taka kvenna í fjöl­breyttu starfi FKA og deilda þeirra sé til þess fall­in að efla og víkka tengslanet þeirra, þekk­ingu og reynslu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert