Valgeir Ólafsson framkvæmdastjóri Tölvuaðstoðar hefur þriggja áratuga reynslu af þjónustu við tæknikerfi. Hann veit fátt skemmtilegra en að vera til staðar fyrir fólk og fyrirtæki þegar á reynir en á sama tíma telur hann mikilvægt að vera skrefi á undan tölvuþrjótum.
„Við hvetjum alla sem geta til að koma að hitta Arísi á UTmessunni um helgina þar sem Tölvuaðstoð verður með fallegan bás að kynna fyrirtækið og þjónustuna,“ segir Valgeir og útskýrir að Tölvuaðstoð sé þjónustufyrirtæki sem hafi í yfir tvo áratugi vaktað tölvukerfi einstaklinga og fyrirtækja af öllum stærðargráðum.
„Fyrirtæki útvista tölvuþjónustunni til okkar til að geta einbeitt sér að því sem þau gera best. Að hafa uppfært, afritað og vaktað tölvukerfi er krafa í nútímarekstri og hvort sem gögnin þín eru í skýinu eða á staðnum þá sérhæfum við okkur í að tölvukerfið þitt sé eins gott og það getur orðið,“ segir Valgeir og bætir við að sérgrein þeirra sé í netkerfum, Microsoft 365, Google Workspace og afritun gagna. „Við höfum unnið í gegnum tíðina með fyrirtækjum sem hafa keypt stærsta forritapakkann hjá Microsoft en vantar að hafa öryggisatriðin virk og hafa jafnvel auðkenningar fyrir samskipti í ólagi.“
Valgeir er einn þeirra sem hafa óbilandi áhuga á upplýsingatækni og hefur í gegnum árin lagt sig fram um að kynna sér öll helstu tækifæri og ógnir þegar kemur að tölvukerfum.
„Við hjá Tölvuaðstoð erum sífellt að skoða leiðir til að geta boðið upp á þá þjónustu sem markaðurinn þarf og hefur gervigreindin hjálpað okkur heilmikið tengt því. Við kynntum spjallmennið Arísi til leiks á UTmessunni í fyrra og er hún skemmtileg viðbót við tækniteymið okkar. Við vorum með nafnasamkeppni á sínum tíma þar sem hin fjögurra ára gamla Arís Linda Ingólfsdóttir kom með hugmyndina að nafninu Arís, sem vísar í Aristóteles.“
Arís er forvitin, nýskapandi og framsækin tæknilausn sem er alltaf að taka framförum og munu gestir UTmessunnar fá að sjá hana og geta spjallað við hana um þá þjónustu sem hún veitir í Tölvuaðstoð. „Við höfum forritað Arísi þannig að hún er hátæknisérfræðingur á heimspekisviði sem er búin til þess að skapa bjartari framtíð fyrir okkur öll,“ segir Valgeir og útskýrir að Arís sé einnig á heimasíðu fyrirtækisins og þó að viðskiptavinum Tölvuaðstoðar finnist einstaklega gott að koma í nýtt húsnæði þeirra að Stórhöfða 17 séu sífellt fleiri komnir upp á lagið með að tala við Arísi, þegar svo ber undir.
Sjálfur hefur hann skoðað gervigreindina ofan í kjölinn og segir margt spennandi í boði í dag en að það séu alltaf tvær hliðar á öllum málum og margt slæmt geti komið upp í tölvukerfi þegar tæknin er notuð í skaðlegu skyni.
„Framtíðin er björt hjá okkur og erum við nú sex manna teymi í Tölvuaðstoð og hefur fyrirtækið vaxið talsvert á undanförnum árum. Þegar við fórum í nýja húsnæðið okkar að Stórhöfða 17 var eins og meiri birta, kraftur og tækifæri kæmu í fangið okkar,“ segir Valgeir og gengur með blaðamanni um höfuðstöðvar fyrirtækisins þar sem fallegir litir, stórar tölvur og mikil hlýja virðist einkenna staðinn.
Hvaðan kemur áhugi þinn á að aðstoða fólk í tæknimálum?
„Ætli ég hafi ekki fyrst fengið æfinguna í að aðstoða fólk í tæknimálum þegar ég hóf störf í upplýsingatæknigeiranum og sinnti starfi á síma hjá Tæknivali og svo við að stýra símaverinu. Ég fékk það tækifæri seinna að vinna sem tæknistjóri hjá Tæknivali samhliða kerfisstjóra en síðan þá hefur heillað mig að vera til staðar fyrir fólk þegar það lendir í áskorunum með kerfin sín.“
Hluti af störfum þjónustufyrirtækja í upplýsingatæknigeiranum er að vita hvað viðskiptavinurinn þarf til að vera öruggur með starfsemi sína. „Við erum með nokkrar þjónustuleiðir í boði. Þær eru Leyfi og afritun, Skýjavakt, Kjarnavakt og Sérvakt. Í öllum þessum þjónustuleiðum leggjum við ríka áherslu á öryggisafritun gagna í skýinu sem tryggir endurheimt gagna verði fyrirtæki fyrir árás eða gagnatapi.
Það er ýmislegt fleira sem ég hef persónulega áhuga á að skoða með fyrirtækjum sem er til dæmis lénin þeirra. Það eru til mjög einfaldar leiðir til að verja lén fyrir svikum en glæpir í gegnum lén eru að aukast talsvert. Árásir eru að verða flóknari og því mikilvægt að hafa sérfræðinga til að taka út tölvukerfin og heimasíðurnar þessu tengt. Ég skoða meðal annars í lénaskrá hvort DNSSEC sé signað og geri nokkrar einfaldar aðgerðir sem kosta lítið. Mér finnst sem dæmi mjög áhugavert að bankar og fleiri stofnanir landsins séu ekki signuð með DNSSEC eftir árásina á einn þeirra á sínum tíma. Árásir sem gerðar eru með því að búa til síður, þar sem farið er á milli þín og vefsíðunnar í eins konar miðjuárás, er tiltölulega auðvelt að stoppa. En ég hef nú alveg sérstaklega gaman af smáatriðum og hvað skiptir máli til að verja fólk og fyrirtæki fyrir árásum,“ segir Valgeir sem að lokum hvetur áhugasama til að koma og hitta hann á UTmessunni í Hörpu um helgina sem er stórskemmtilegur viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.