Ert þú með ábendingu?

Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á frettir@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is

Fyrstu myndir frá Plútó

Umsjón: Kjartan Kjartansson (kjartan@mbl.is)

Umfjöllun lokið: síðast uppfært mið. 15. júl. 2015 kl. 0:00

Eftir níu og hálfs árs og tæplega fimm milljarða kílómetra ferðalag sendir NASA-geimfarið New Horizons fyrstu nærmyndirnar frá yfirborði Plútós.

mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Samtantekt

Helstu punktarnir frá blaðamannafundi New Horizons-teymisins í kvöld:

  • Plútó og Karon eru mun fjölbreyttari og virkari heimar en menn höfðu gert sér hugmyndir um
  • Fáir gígar eru á yfirborði hnattanna tveggja sem bendir til þess að það sé afar ungt á jarðfræðilegan mælikvarða
  • Það bendir til þess að einhvers konar jarðvirkni sé enn að finna. Hingað til hefur verið talið að jarðvirkni í ístunglum reikistjarna í sólkerfinu sé tilkomin vegna flóðkrafta sem virka á milli þeirra og reikistjarnanna.
  • Á Plútó sjá menn fjallgarða sem eru allt að fjögurra kílómetra há sem eru að öllum líkindum úr vatnsís.
  • Á Karoni virðast merki um gljúfur sem er fimm sinnum dýpra en Miklugljúfur og með hamraveggi sem eru 6-10 kílómetra háir.
  • Svæðið sem fram að þessu hefur verið nefnt „hjartað“ á Plútó mun heita Tombough Regio að tillögu vísindateymisins til heiðurs manninum sem fann hnöttinn árið 1930, Clyde Tombough.

Með því bindum við enda á þessa beinu lýsingu á fyrstu vísindagögnunum frá flugi New Horizons fram hjá Plútókerfinu. Við þökkum þeim sem lásu!

Blaðamannafundinum lokið

Mikið er búið að vera um vangaveltur á blaðamannafundinum sem var að ljúka um eðli þess sem menn sjá á myndunum frá Plútókerfinu. Enn sem komið er geta menn aðeins getið sér til um það sem ber fyrir augu. Frekari gögn eiga eftir að berast næstu daga og þá verður ef til vill hægt að draga einhverjar frekari ályktanir og öll gögnin munu ekki liggja fyrir fyrr en á næsta ári.

Það er þó ljóst að gögnin sem New Horizons er rétt að byrja að senda til baka eiga eftir að verða efniviður í rannsóknir í mörg, mörg ár og breyta hugmyndum sem menn höfðu um þennan ysta afkima sólkerfisins og mögulega ístunglin innar í sólkerfinu líka.

Með mest spennandi hnöttum sólkerfisins

Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, er skiljanlega spenntur yfir myndunum sem hafa borist af Plútó og Karoni. Sérstaklega veki það athygli hversu ung yfirborð hnattanna virðist.

„Þetta líta út fyrir að vera bara með áhugaverðustu hnöttum sem við höfum heimsótt í sólkerfinu,“ segir Sævar Helgi.

4 km há fjöll á Plútó úr vatnsís, þakin þunnum snjóalögum úr metani og nitriVá vá vá!

Posted by Stjörnufræðivefurinn on Wednesday, 15 July 2015

Geislandi geimvísindamenn

Augljóslega eru myndirnar aðeins nýlega komnar í hús og aðeins brotabrot af gögnunum frá New Horizons er komið til jarðar en vísindamennirnir mega vart mæla af spenningi á blaðamannafundinum. Ungleg yfirborð bæði Plútós og Karons hafa komið þeim í opna skjöldu og opnar á möguleikann á jarðvirkni og hita í litlum íshnöttum sem menn höfðu fram að þessu ekki talið mögulegan.

Þá eru vísindamennirnir sammála um að fjöllin sem þeir hafa séð á Plútó sem eru rúmlega þriggja kílómetra há geti aðeins verið úr vatnsís sem væri þá hluti af berggrunni hnattarins. Þekkt er að ís úr köfnunarefni og kolmónoxíði er að finna á Plútó en hann sé of mjúkur til að geta myndað fjöll af þessari stærðargráðu.

Myndskeið af staðsetningunni

NASA hefur birt myndskeið sem sýnir af hvaða svæði Plútós fyrsta nærmyndin sem barst til jarðar var tekin.

Engir gígar sjáanlegir og fjöll úr vatni

Fyrsta nærmyndin af litlu svæði yfirborðs Plútós hefur verið birt og hún gæti gjörbylt hugmyndum manna um jarðvirkni íshnatta! Vísindateymið hefur ekki komið auga á neina gíga sem bendir til þess að yfirborðið sé afar ungt jarðfræðilega. Það markar tímamót vegna þess að fram að þessu hefur verið talið að jarðvirkni og hiti í íshnöttum eins og Evrópu og fleiri tunglum reikistjarna sólkerfisins sé knúin áfram af flóðkröftum vegna nálægðarinnar við stórar reikistjörnur. Engir slíkir flóðkraftar eru hins vegar til staðar á Plútó og því gæti þetta þýtt að jarðvirkni geti verið til staðar á íshnöttum óháð flóðkröftum.

Þá sagði Alan Stern, aðalvísindamaður leiðangursins, að fjöll sem þau hafa komið auga á hljóti að vera úr vatnís. Því benda fyrstu merki til þess að nóg sé af vatni á Plútó!

Mordor á Karoni

Vísindamennir segja að stærsta tungl Plútós, Karon, hafði heillað þá upp úr sokkunum í dag. Þeir hafi átt von á fornu yfirborði, alsettu gígum en svo hafi alls ekki verið raunin. Það bendi til virkni á hnettinum sem menn hafi ekki átt von á.

Dökka svæðið við norðurpól tunglsins gangi óformlega undir nafinu Mordor enn sem komið er.

Fyrsta myndin af Hýdru

Fyrsta mynd New Horizons af Hýdru, ysta tungli Plútós. Myndin er í lágri upplausn en betri myndir eiga eftir að fást síðar.

Stórar fréttir af tunglunum

Alan Stern, aðalvísindamaður New Horizons-leiðangursins, lofar stórum fréttum af tunglum Plútós, Karoni og Hýdru. Þar á meðal að merki séu um að Karon sé enn virkur hnöttur og fjöll sé að finna í Kuiper-beltinu. Hal Weaver, vísindamaður úr leiðangrinum, segir að tunglin tvö eigi eftir að stela deginum.

Færðir í Area 51

John Grunsfeld, aðstoðarforstöðumaður vísindaleiðangra NASA, byrjar fundinn á að sýna myndir af sólinni og öllum reikistjörnunum sem geimför NASA hafa tekið myndir af. Þegar kom að mynd af jörðinni sagði Grunsfeld að ef einhver í salnum þekkti ekki næsta hnöttinn myndu öryggisverðir stofnunarinnar fylgja viðkomandi út og færa hann á Area 51 við mikla kátínu viðstaddra.

Fundurinn að hefjast

Blaðamannafundur New Horizons-teymisins og NASA er að hefjast í Johns Hopskins-háskólanum í Maryland í Bandaríkjunum. Hægt er að fylgjast með honum í beinni útsendingu á


.

Hraðari en byssukúla

New Horizons ferðast virkilega hratt. Reyndar á tæplega 50.000 kílómetra hraða á klukkustund. Augljósa spurningin sem vaknar hjá þá flestum er: hvað myndi gerast ef geimfarið rækist á bíl?

Það þarf enginn að lifa áfram í fáfræði því Randall Munroe á xkcd.com hefur tekur það að sér að svara því hvað yrði um bílinn (og geimfarið) ef farartækin rækjust á einhvern ótrúlegan hátt saman. Hann setur líka hraða geimfarsins í samhengi: ef einhver hleypti skoti við endalínu bandarísks fótboltavallar á sama tíma og New Horizons flygi yfir hann væri geimfarið komið að hinni endalínunni áður áður en byssukúlan næði að ferðast níu metra (10 yarda línunni).

Áreksturinn ætti að líta út um það bil svona, samkvæmt Munroe:


Myndirnar væntanlegu

Hér er hægt að sjá af hvaða svæðum á Plútó nærmyndirnar sem eru væntanlegar voru teknar.

Sárin svíða enn...

Þegar New Horizons lagði af stað til Plútós árið 2006 var hann ennþá skilgreindur sem reikistjarna. Alþjóðasamband stjörnufræðinga ákvað hins vegar sama ár að lækka Plútó í tign og skilgreina hann sem dvergreikistjörnu.

Stephen Colbert, sem tekur við spjallþætti Dave Letterman í september, er ekki tilbúinn að leyfa stjörnufræðingum eins og Neil deGrasse Tyson að gleyma þessari svívirðilegu aðför að Plútó.

„Veistu hvernig hann lítur út? Hann lítur út eins og mynd í orðabók þar sem stendur „reikistjarna“. Hann lítur út eins og reikistjarna. Hann er með lofthjúp og er jafnvel með hjarta, ólíkt þér sem gefur honum enga ást!“ segir Colbert við forhertan deGrasse Tyson.

Úr ljósbletti í alvöru heim

Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan að bestu myndir sem menn áttu af Plútó voru eitthvað í líkingu við það sem Han Solo sá eftir að hafa verið frystur í kolefni í síðustu Stjörnustríðsmyndinni. (Mbl.is viðurkennir ekki tilvist þriggja seinni tíma tilrauna til þess að eyðileggja kvikmyndabálkinn.)

Á síðustu myndinni sem New Horizons sendi til baka úr aðfluginu lítur Plútó loksins út eins og raunverulegur staður með landslagi og forvitnilegum myndunum.