Þjóðmálin
18. apríl 2025
Þegar kvótakerfið var innleitt á Íslandi snemma á níunda áratug síðustu aldar var það eins konar „silver bullet“ fyrir greinina sem var afar illa stödd og gríðarlega skuldsett. Stefán Þórarinsson var einn af þeim sem sáu um að koma kerfinu í framkvæmd á sínum tíma. Þegar hann talar um silfurkúlu er það þekkt orðatiltæki sem á að vísa í lokatilraun til að leysa stórt vandamál með einföldum hætti.
Nýja fiskveiðistjórnunarkerfinu var komið til framkvæmda á þremur mánuðum eftir að pólitísk ákvörðun lá fyrir og við fyrstu úthlutun máttu fyrirtækin sætta sig við ríflega 40% skerðingu heildarafla í þorski. Flestir eru búnir að gleyma hvert ástandið var í sjávarútvegi og sjávarplássum um allt land.
Stefán ræðir tilurð kerfisins, allar smugurnar sem stjórnmálamenn bjuggu til og leiddi til mikillar sóunar. Byggðakvóti var upphaflega ákveðinn til fimm ára með tveggja ára framlengingu. Samtals áttu byggðir í vanda að skipta með sér 1.500 þorskígildistonnum. Byggðakvótinn er enn við lýði og nálgast nú „félagsmálapakkinn“ í sjávarútvegi þrjátíu þúsund tonn.
Stefán segir strandveiðar sóun á fjármunum og auðlindinni. Þannig er það hans mat að á 34 árum hafi um 1.200 bátar verið seldir út úr því sem hann kallar smugur, þar sem litlir bátar hafa komið inn í opinn hluta kerfisins sem hefur svo verið breytt. Þessi fjöldi báta jafngildir því að allan tímann hafi bátur með áunnin sérréttindi verið seldur á tíu daga fresti. Til eru ófá dæmi um að bátar hafi verið seldir mörgum sinnum og komi svo aftur inn í kerfið. Hann segir að sama skapi að sjávarútvegurinn geti lagt meira til samfélagsins en það þurfi að gerast í samráði við greinina og ekki bara með snillinganefndum sem vinni fyrir stjórnvöld. Stefán telur réttu leiðina vera að fjármunir frá greininni renni í sérstakan sjóð, þar sem greiðslurnar séu sýnilegar og nýtist til stórra verkefna sem gagnist landi og þjóð. Þessi þáttur Dagmála er skylduáhorf fyrir þá sem hafa áhuga á sjávarútvegi og ekki síður þá sem eru í stjórnmálum.