Be blæs til sóknar

mbl.is

Mörg­um þótti það óðs manns æði þegar fyrr­ver­andi frammámaður Apple lagði mikið fé í að smíða nýtt stýri­kerfi sem yrði fjölþráða fjölvinnslu­kerfi með minn­is­vernd. Fyr­ir­tækið sem hann stofnaði heit­ir Be og stýri­kerfi BeOS. Síðan hef­ur mikið gerst í tölvu­heim­in­um, þar á meðal Net­bylt­ing­in, og BeOS hef­ur einnig tekið stór­stíg­um breyt­ing­um eins og sjá mátti á kynn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins á CeBIT.

Á bás BeOS á CeBIT var fyr­ir að hitta Jean Calmon, vara­for­seta Be, sem hafði í ýmsu að snú­ast við að veita sjón­varps- og blaðaviðtöl á milli þess sem hann dró gesti og gang­andi inn á bás­inn til að kynna fyr­ir þeim að sem þar fór fram. Calmon var meðal ann­ars að kynna sér­staka gerð af BeOS sem sniðin er að ein­föld­um tækj­um sem hægt er að nota til að tengj­ast Net­inu, til að mynda borðsím­um með skjá fyr­ir hreyfi­mynda­flutn­ing eða Netteng­ingu, tölv­um sem eru ekki nema skjár með penna fyr­ir ein­falda textainn­rit­un, en þær eru notaðar við móður­stöðvar með út­varps­sendi og bjóða því upp á þráðlaust Net­sam­band svo dæmi séu tek­in.

Aðal Be stýri­kerf­is­ins er hversu vel það streym­ir hreyfi­mynd­um og Calmon sýndi það meðal ann­ars á ræf­ils­legri Celeron-tövu sem keyrði BeOS og gat sýnt þrjár hreyfi­mynd­ir í einu, sótt tölvu­póst, vafrað um netið án þess að hiksta.

Be hef­ur gengið illa að staðsetja stýri­kerfið á markaði þrátt fyr­ir heiðarlega til­raun til að selja það sem sér­stakt marg­miðlun­ar- og mynd­vinnslu­stýri­kerfi. Þar skipt­ir vit­an­lega mestu að lítið hef­ur verið um veiga­mik­inn hug­búnað fyr­ir kerfið, en Calmon ger­ir því skóna að það muni breyt­ast í ljósi þess að næsta út­gafa Be, 5.0, verður ókeyp­is. Hann seg­ir að áhugi á því sé tals­vert meiri en Be-menn hafi bú­ist við og þegar hafi um 30.000 manns skráð sig á póstlista um að fá að vita þegar hug­búnaður­inn verður til­bú­inn í mars næst­kom­andi. Að hans sögn má reikna með því að hundruð þúsunda muni sækja sér stýri­kerfið og því geti ekki farið nema svo að for­rit­ur­um sem fást við BeOS eigi eft­ir að fjölga um­tals­vert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert