Eins gígariðs múrinn rofinn

Advanced Micro Devices staðfesti í morgun að í dag yrði eins gígariðs örgjörvi frá fyrirtækinu settur á markað, sá fyrsti í sögu einmenningstölvunnar. AMD hefur því unnið óformlega keppni sína við Intel um það hvor framleiðandinn yrði fyrri til við að ljúka smíði örgjörvans.

Örgjörvinn verður settur á markað ásamt minni gerðum, 950 og 900 megariða. Forstjóri AMD, Jerry Sanders hefur líkt áfanganum við það þegar hljóðmúrinn var brotinn þrátt fyrir að ýmsir hafi bent á að hugbúnaður í dag þurfi ekki þvílíkt reikniafl og því sé áfanginn í raun óþarfur. Líklegt er að örgjörvinn verði vinsæll meðal leikjaunnenda og talið er víst að Compaq og Gateway hefji sölu á tölvum búnum örjövanum í dag. Útspil AMD koma á síðustu stundu því Intel munu kynna eins gígariðs útgáfu af Pentium III-örgjörvanum á miðvikudag að öllum líkindum.

Þó þykir líklegt að AMD-örgjörvinn muni standa sig lítið eitt betur því hann notast við 200 megariða kerfisbraut en Intel-örgjörvinn notar kerfis braut sem keyrir á 133 megariðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert