Intel markaðssetur 1.000 megariða örgjörva

Líkt og búist hefur verið við tilkynnti Intel í dag útgáfu eins gígariðs örgjörva frá fyrirtækinu í dag. Sala á örgjörvanum verður hafin í vikunni. Intel og AMD hafa att kappi síðan í ágúst á síðasta ári þegar AMD varð á undan Intel að framleiða 650 megariða örgjörva. AMD hefur síðan yfirleitt orðið fyrra til við að markaðssetja nýja örgjörva og vilja margir meina að AMD hafi unnið þessa óformlegu keppni er því tókst á mánudag að ná eins gígariðs markinu.

Dell, Hewlett-Packard og IBM munu í fyrstu verða þeir einu sem selja munu örgjörvann, sem mun kosta tæplega þúsund bandaríkjadali, þremur hundruðum minna en örgjörvinn frá AMD. Intel-örgjörvinn mun þó ekki vera jafn hraðvirkur og sá frá AMD því Intel-örgjörvinn notast við hægvirkari kerfisbraut eða 133 megarið, AMD-örgjörvinn keyrir á 200 megariðum.

Talið er að áfanginn muni gagnast almennum notendum í því að aðrir örgjörvar lækki í kjölfarið en ólíklegt þykir að eins gígariðs örgjörvar muni ná hylli almennings strax, bæði vegna verðs en einnig vegna þess að oft er erfitt að nálgast hraðvirkustu örgjörvana fyrst eftir útgáfu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert