Íslenska útgáfan af Windows 98 fær góðar viðtökur

Sala hófst á íslensku útgáfunni af Windows 98-stýrikerfinu frá Microsoft í morgun. Að sögn Jónasar Hreinssonar sölustjóra hjá Tæknivali hafa viðtökurnar verið frábærar. Hann segir að margir hafi lagt leið sína í verslunina til þess að skoða útgáfuna og margir hafi fest kaup á henni. Í Tæknivali hafa selst 58 eintök af uppfærslunni í morgun og 18 eintök af stýrikerfinu í heild. Þetta er mjög góð sala á einum morgni, að sögn Jónasar. Sérstakt kynningartilboð er á Windows pakkanum og er hann seldur á tæpar tíu þúsund krónur en uppfærslan er seld á tæpar 4 þúsund krónur.

Microsoft valdi Tæknival til að starfrækja upplýsingaþjónustu fyrir notendur hugbúnaðarins hér á landi. Jónas segist ekki vita til þess að margir hafi hringt inn vegna vandamála í morgun en búast má við að einhverjir hafi samband þegar líða tekur á daginn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert