Lögreglan á Filippseyjum hefur fundið diskling, í húsnæði pilts sem er sagður hafa komið ástarorminum af stað, sem hefur að geyma vírus, sem svipar til þess er var sendur út á Netið. Vírusinn sem lögreglan komst yfir er sagður skrifaður af nýútskrifuðum tölvufræðingi, Michael Buen, sem einnig var tekinn til yfirheyrslu vegna ástarormsins. Lögreglan náði að endurheimta skrá, sem hafði að geyma vírus, er hafði verið eytt, sem hafði verið skrifuð af Buen. Er ekki loku fyrir það skotið að Onel A. de Guzman, sem er talinn hafa komið ástarorminum á Netið, hafi einnig átt þátt í gerð vírussins, sem fannst á disklingnum. Ástarormurinn og vírusinn á disklingnum voru skrifaðir á Visual Basic-forritunarmáli. Guzman og Buen voru í sama skóla en Guzman hefur enn ekki útskrifast frá tölvuskólanum. Lögreglan fann fleiri disklinga í leit sem gerð var í íbúð Guzmans en ekkert markvert var talið hafa fundist á þeim, nema nöfn 30 samnemenda piltanna tveggja. Æltar lögreglan að ræða við nemendurna. Guzman neitar enn sakargiftum um að hafa komið ástarorminum á Netið með þeim afleiðingum að margar tölvur um heim allan báru skaða af.