Rússneskir tölvuþrjótar láta til skarar skríða

Lögreglan í Moskvu hefur handtekið fimm menn sem eru grunaðir um að hafa stolið kortanúmeri frá fyrirtækjum og náð til sín um 4,4 milljónum ísl. króna. Tölvuþrjótarnir léku lausum hala frá desember til april og stálu kortanúmerum frá meira en 5.400 rússneskum sem erlendum fyrirtækjum.

Höfuðpaurinn er sagður 22 ára, en hann sá um að stofna fyrirtæki, sem var kallað Politshop. Aðrir í hópnum, sem voru 19, 22 og 40 ára, stálu kortanúmerum frá fyrirtækjum og áttu viðskipti við Politshop fyrir háar fjárhæðir. Síðan millifærði hópurinn kortafærslur viðskipta inn á bankareikning fyrirtækisins, án þess að viðskiptabanki Politshop grunaði að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða. Glæpir á Netinu er ört vaxandi vandamál í Rússlandi eins og annars staðar í heiminum. Má nefna að fyrir skömmu náðu tölvuþrjótar að brjótast inn í tölvukerfi ríkisrekins gasfyrirtækis í Rússlandi. Náðu þeir tangarhaldi á kerfi fyrirtækisins en voru um síðir yfirbugaðir. Lögreglan skráði 850 tölvuglæpi hjá sér á liðnu ári, sem er tólfföld aukning frá árinu á undan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert