Nýi tölvuvírusinn ekki afbrigði af ástarveirunni

Samkvæmt frétt á tölvufréttavefnum Cnet er nýr skæður tölvuvírus sem farinn er að breiðast út um heiminn ekki afbrigði af ástarvírusnum, þótt þeir eigi það sameiginlegt að notfæra sér Microsoft Outlook-póstforritið. Nýi vírusinn virðist vera skæðari, því hann eyðileggur meira og stökkbreytir sér þannig að erfiðara er að varast hann.

Friðrik Skúlason vírusvarnasérfræðingur segir að engar fréttir hafi borist af því að vírusinn hafi stungið sér niður á Íslandi, og honum hefur aðeins borist ein viðvörun annars staðar frá, en þegar "ástarvírusinn" fór af stað kom mikill fjölda skeyta sem fjölluðu um hann. Vírusinn eyðileggur ekki aðeins skjöl í tölvum, heldur einnig forrit og stýrikerfi. Hann fylgir með tölvupósti sem VisualBasic-fylgiskjal, sem þekkja má af endingunni ".vbs". Titill tölvupóstsins tekur stöðugum breytingum, því vírusinn tekur tilviljunarkennt nafn skráar úr tölvunni og bætir við forskeytinu „FW:", eða „áframsent". Til að rugla vírusvarnaforrit í ríminu gerir vírusinn einnig stöðugar breytingar á sjálfum sér með því að bæta við athugasemdum í kóðanum. Friðrik segir þó að vírusvarnaforrit, að minnsta kosti þau sem hann hefur sjálfur skrifað, láti slíkar viðbætur ekki trufla sig. Í kjölfar ástarvírussins lofaði tölvufyrirtækið Microsoft viðbót við póstforritið Outlook sem á að koma í veg fyrir sams konar uppákomur. Cnet hefur það eftir talsmönnum vírusvarnafyrirtækisins Symantec að viðbótin dugi til að stöðva nýja vírusinn, en henni hefur enn ekki verið dreift til notenda. Fjölmargar nýjar útgáfur af ástarvírusnum hafa breiðst út í kjölfar hans, að mati Symantec eru þær orðnar um þrjátíu talsins. Sumar þeirra eru skaðlegri en sú upphaflega að því leyti að þær eyða fleiri skrám, en ástarvírusinn réðst aðeins gegn mynd- og hljóðskrám af ákveðnum tegundum. Að sögn talsmanns Symantec eyðir nýi vírusinn nánast öllu á tölvunni. Hann skrifar ekki yfir skrárnar heldur minnkar þær þannig að þær verða að engu. Til að varast vírusinn er rétt að hafa augun opin fyrir tölvupósti með forskeytið "FW:" í titlinum og sem innihalda ekki neinn texta. Varast ber að opna viðhengi sem fylgja slíkum tölvupósti. Fram að þessu hafa aðeins borist fregnir af vírusnum í Bandaríkjunum og Ísrael. Samkvæmt upplýsingum frá vírusvarnafyrirtækinu Trend Micro hefur tölvupóstur með vírusnum borist til fimm þúsund tölva hjá einum viðskiptavini þess, en óljóst er enn í hversu mörgum tilvikum viðhengið var opnað. Tölvunotendur um allan heim þurfa þó að vera á varðbergi, því vírusinn getur breiðst mjög hratt út. Grein Cnet um nýja tölvuvírusinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert