Nýtt og skaðlegra afbrigði ástarveiru skýtur upp kolli

Nýju afbrigði ástarveirunnar, sem olli stórskaða í tölvukerfum fyrir rúmum tveimur vikum, hefur skotið upp kolli og þegar valdið þúsundum notenda tjóni, að sögn fyrirtækja sem láta öryggismál í hugbúnaði til sín taka. Virðist hún skaðlegri en ástarveiran en vonast er til að nýjar og öflugar varnir, sem fyrirtæki hafa komið sér upp, komi í veg fyrir að hún dreifi sér eins ört og ástarveiran.

Veiran sækist einkum eftir því að komast í Microsoft Outlook forritið. Er fólk sérstaklega varað við að opna tölvupóst sem kann að innihalda skjöl með endingunni .VBS. Sé slíkur póstur opnaður ræðst veiran á útsendingarlista Outlook-kerfisins rétt eins og ástarveiran en nafn viðhengisins er líklegt til að taka breytingum í hvert sinn sem nýr tölvupóstur er sendur um kerfið. Endurnefnir ormurinn allar skrár á harða diski tölvunnar sem hann kemst í og netdrif með endigunni vbs, núllstillir skrárnar og gerir tölvukerfið þar með í raun óstarfhæft. Hefur veiran mismunandi áhrif frá einni tölvu til annarrar því hann er stöðgut að stökkbreyta sjálfum sér, að sögn sérfræðinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert