Tölvuveira sem dreifir sér með sama hætti og "ástarveiran" sk. olli víða í heiminum tjóni á hugbúnaði tölva í gær. Sérfræðingar segja að veiran, sem þeir kalla "NewLove-A", sé mun skæðari en ástarveiran þar sem hún reyni að eyðileggja öll skjöl á hörðum diski tölvu sem smitast.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) tilkynnti í gær að hún hefði hafið rannsókn á uppruna veirunnar. Ekki lágu í gær fyrir tölur um útbreiðslu veirunnar í öðrum heimshlutum.
Líkt og ástarveiran, sem olli miklum skaða um víða veröld í síðustu viku, dreifir nýja veiran sér á sama hátt og sk. "tölvuormar" gera. Tölvuormar berast frá einni tölvu til annarrar með því að senda afrit af sjálfum sér til allra netfanga sem skráð eru í þeirri tölvu sem þeir sýkja.
Ástarveiran olli einungis skaða á tilteknum tegundum skjala í minni þeirra tölva sem hún sýkti en nýja veiran er sögð gera tilraun til að eyðileggja öll skjöl í tölvunni. Veiran berst, líkt og ástarveiran, í viðhengi með tölvupósti og villir á sér heimildir með aðlaðandi nafngift. Efnislýsing ástarveirunnar var þannig setningin "I LOVE YOU" en efnislýsing nýju veirunnar tekur sífelldum breytingum. Veiran breytir efnislýsingunni í hvert sinn í nafn skjals sem nýlega hefur verið keyrt í tölvunni. Ef ekkert skjal hefur nýlega verið keyrt í tölvunni velur nýja veiran orð eða setningu af handahófi og skeytir bókstöfunum "FW" framan við. Með þessu móti er viðtakanda talin trú um að netbréfið sé sent áfram vitandi vits af eiganda sýktu tölvunnar. Viðhengið sem inniheldur nýju veiruna stækkar að umfangi í hvert sinn sem það er sent og er eftir að hafa farið gegnum þrjá viðtakendur orðið um 800 kílóbæti.
Sérfræðingar binda vonir við að nýja veiran muni ekki valda jafn miklum skaða og ástarveiran þar sem fólk sé almennt orðið varara um sig nú. Líkt og í tilviki ástarveirunnar eru það einungis notendur Microsoft Outlook hugbúnaðarins sem eiga á hættu að veiran valdi þeim skaða. Notendur annars konar póstkerfa verða ekki fyrir barðinu á þessum veirum.
New York. AP, Reuters.