Tilraun Microsoft til þess að laga þá galla sem í ljós komu í Outlook-tölvupóstforritinu, þegar ástarveiran lék lausum hala, hefur ekki gengið sem skyldi. Ástarveiran gerði meiri óskunda í Outlook heldur en í öðrum póstforritum vegna þess hvernig það vinnur með viðhengi sem fylgir tölvupósti.
Ákveðið var að gera betrumbætur á skipanamálinu í Outlook og var markmiðið að reyna að koma í veg fyrir að viðhengi gæti valdið jafn miklum skaða og ástarveiran gerði, þ.e. dreift sér áður en notandi gat við neitt ráðið. Búið er að koma í veg fyrir þann galla sem einkenndi forritið og felst breytingin í því að búa til vegg sem kemur í veg fyrir að forrit geti sent póst áfram í Outlook án þess að notandi sé varaður við. En þrátt fyrir betrumbætur eru ekki allir notendur ánægðir með gang mála og margir orðið fyrir talsverðum óþægindum. Þeir sem hafa til dæmis hlaðið eldri útgáfu af viðbótinni í forritið hafa orðið fyrir ónæði vegna þess hve öryggiskröfur eru strangar. Viðbótin, sem á að vinna bug á skemmdum af völdum vírusa, kemur í veg fyrir óleyfilega notkun á upplýsingaskráa í forritinu og hefur valdið notendum lófatölva, eins og Palm, Psion og Windows CE vandræðum. Þá geta þeir sem nota Outlook 97 ekki bætt við viðbótinni nema þeir fái sér nýrri útgáfu. Microsoft hefur birt lista yfir þau vandamál sem viðbótin veldur og er unnið að því að ráða bug á þeim hnökrum.