Ódæll strákur gerir óskunda með tölvuvírusum

15 ára skólapiltur í Hathershaw-grunnskólanum í Oldham varð uppvís að því að reyna að smita tölvukerfi skólans með 256 tölvuvírusum. Skólayfirvöld segja að drengnum hafi ekki tekist ætlunarverk sitt því eldveggur kerfisins hafi komið í veg fyrir skaða. Hann hafði margsinnis áður reynt að misnota tölvukerfi skólans og því var þolinmæði yfirmanna skólans á þrotum. Ákveðið var að hann fengi ekki að nota tölvukerfi skólans um óákveðinn tíma.

Strákurinn sætti sig ekki við þá ákvörðun og var staðráðinn í að launa yfirmönnum skólans gráan belg fyrir rauðan. Hann gekk á fund ritstjórnar Odham Advertiser-dagblaðsins og tjáði henni að honum hefði tekist að smita tölvukerfi skólans með því að senda 256 vírusa inn á tölvukerfið. Er blaðamenn fóru að skoða málið kom hið sanna í ljós við miður góðar undirtektir skólayfirvalda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert