Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar hver hafi staðið fyrir dreifingu á nýjum og skæðum tölvuvírusi, sem dreifir sér með Microsoft Outlook-póstforritinu. Með póstinum sem inniheldur vírusinn fylgir viðhengi um atvinnuferilsskrá undir heitinu "Resume - Janet Simons". Þegar viðhengið er opnað dreifir vírusinn sér í póstlista notanda. Er lagt til þess að þeir sem fá slíkan póst eyði honum án þess að opna hann.
Þessi vírus er sagður geta eytt skrám á hörðu drifi tölva en að mati sérfræðinga dreifist hann hratt og hefur þegar valdið usla í fyrirtækjum, einkum í Bandaríkjunum. Er unnið að vírusvörn sem kemur í veg fyrir útbreiðslu veirunnar, en vegna þess að fáir eru starfandi í fyrirtækjum um helgar eru líkur á að hann geti dreift sér fyrr og valdið meiri skemmdum en ella. Er þessi vírus sagður líkjast Melissu-vírusforritinu, sem gerði tölvunotendum lífið leitt.