Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur ráðgert fund með fulltrúum fyrirtækis sem framleiðir öryggisbúnað fyrir tölvur sem segjast hafa uppgötvað innrásir tölvuþrjóta í um 2.000 tölvur, ýmist í eigu fyrirtækja eða einstaklinga, sem hafa komið fyrir hugbúnaði sem nota á til að lama vefsetur. Fulltrúar fyrirtækisins segja að þetta hafi verið gert við tölvur víðsvegar í heiminum, til að mynda í Austurríki, Grikklandi, Kanada, Rússlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum.
Fyrirtækið Network Security Technologies, NETSEC, sem starfað hefur fyrir dómsmálaráðuneytið, segir að þessi nýuppgötvaði vandi beri vott um varnarleysi notenda heimilistölva með háhraðatengingu við Netið og noti fólk ekki sérstakan varnarbúnað sé fólk auðvelt skotmark. Stærri fyrirtæki höfðu einnig orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótunum. „Hver sá sem er beintengdur við Netið er sérstaklega varnarlaus gagnvart þessum "bakdyra-forritum". Við höfum séð fjöldann allan af árásum á slíkar tölvur," segir Vincent Weafer, formaður Symantec, fyrirtækis sem framleiðir vírusvarnarhugbúnað. Tölvuþrjótarnir, sem hafa tekið sér nöfnin „Serbian" og „Badman", prófuðu hugbúnaðinn á miðvikudagskvöld og gætu gert árás hvenær sem er, segja fulltrúar NETSEC. NETSEC gerði dómsmálaráðuneytinu grein fyrir málinu í gær og lét því í té lista yfir 2.000 tölvur víðs vegar um heiminn sem hafa verið sýktar af forritinu. Tölvuþrjótarnir komu fyrir forriti sem lítur út líkt og myndband. Forritið lamar viðkomandi tölvu svo að tölvuþrjótarnir geta stýrt henni. Þegar platmyndbandið er ræst, en forritið nefnist „Serbian Badman Trojan", verður tölvunotandinn þess ekki var. Forritið sendir síðan lykilorð, upplýsingar um tölvunetið og fleira til tölvuþrjótanna. Með þessar upplýsingar í höndunum geta tölvuþrjótarnir notað sýktu tölvurnar sem athvarf fyrir bæði persónuleg og samnýtanleg skjöl eða komið af stað svokallaðri „denial of service attacks" á vefsetur, en það var einmitt árás af þeirri gerð sem lamaði vefsetur Yahoo, CNN, Amazon og fleiri stórfyrirtækja. Þegar árásin er gerð lamast vefsetrið og notendur þess komast ekki inn á vefi vefsetursins.