Fyrrum ofursti í leyniþjónustu Sovétríkjanna (KGB), sem búsettur er í Bandaríkjunum, hefur lagt inn umsókn um einkarétt á nýju kerfi er gert getur tölvuþrjóta iðjulausa og er talið að uppfinningin muni geta orðið bjargvættur bandarísks tölvuiðnaðar.
Frá því honum var smyglað frá Sovétríkjunum sálugu með aðstoð leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) hefur Victor Sheymov starfað fyrir bandarískar öryggismálastofnanir í þeim tilgangi að brjótast inn í tölvukerfi KGB sem hann hafði sjálfur hannað.
Eftir að hann lenti í útistöðum við yfirmenn sína innan CIA stofnaði Sheymov eigið tölvufyrirtæki og hóf rannsóknir á að bæta reikniriti (algrími) við kerfisforritun tölva sem að hans mati mun stuðla að því að ekki verði hægt að brjóta sér leið inn í tölvur og afrita upplýsingar.
Tölvuþrjótar hafa á undanförnum skapað mikil vandræði fyrir bandarísk fyrirtæki og ríkisstofnanir og á síðustu misserum hefur komist upp um fjölda tilfella innan bandaríska utanríkisráðuneytisins og CIA þar sem óprúttnir tölvuþrjótar hafa afritað mikilvæg skjöl úr tölvum er taldar voru öruggar.
Fyrrum samstarfsmenn Sheymovs hjá Þjóðaröryggismálastofnun Bandaríkjanna (NSA) hafa reynt að brjótast inn í tölvur búnar reikniriti Sheymovs en enn hefur engum tekist að komast alla leið.
Talið er að Victor Sheymov sé á góðri leið með að verða næstur í langri röð milljónamæringa sem hagnast hafa gífurlega í tölvuiðnaðinum á undanförnum árum.