Bandaríska netfyrirtækið America Online, AOL, staðfesti í dag að tölvuþrjótar hefðu brotist inn í tölvukerfi fyrirtækisins og komist inn á netsvæði nokkurra áskrifenda netþjónustu AOL. Virðast þrjótarnir hafa notað svipaðar aðferðir og beitt var þegar Ástarormurinn svonefndi fór á örskotshraða um tölvukerfi heimsins fyrir nokkrum vikum, þótt umfangið nú hafi verið mun minna.
Talsmaður AOL sagði í dag að kvartanir hefðu borist frá nokkrum áskrifendum um að brotist hafi verið inn á netsvæði þeirra. Sagði hann að fyrirtækið tæki þessar kvartanir alvarlega. Hann vildi hvorki upplýsa hve margir áskrifendur hefðu orðið fyrir þessu né hvenær. Tölvuþrjótarnir notuðu rafpóst sem innihélt svonefnda Trójuhesta, viðhengi sem opnar sendanda aðgang að tölvukerfi viðtakanda. Talsmaðurinn sagði að tölvuþrjótarnir virust ekki hafa komist inn í gagnabanka AOL þar sem m.a. eru geymdar upplýsingar um 23 milljónir áskrifenda þjónustunnar. Hann sagði að ásakanirnar yrðu rannsakaðar og upplýsingum um málið komið í hendur lögregluyfirvalda. AOL var eina stóra netþjónustufyrirtækið sem komst hjá því að þurfa að loka tölvukerfi sínu þegar tölvuárásir voru gerðar á mörg stór bandarísk netfyrirtæki í febrúar. Þá hafði Ástarormurinn lítil áhrif á starfsemi fyrirtækisins.