Nýs tölvuvíruss hefur orðið vart hér á landi og samkvæmt heimildum fréttavefjar ZDNet veldur hann mestum skaða með því að drekkja vefþjónum í tölvuskeytum og hægja þannig á umferð tölvupósts. Vírusinn berst í tölvur sem viðhengi tölvupósts og heitir ýmsum nöfnum, s.s. Funny Text og Life Stages. Endingin á heiti skjalsins er ".txt.shs" og það er alltaf 39.936 bæti að stærð. Vesselin Bontchev, vírusvarnarsérfræðingur hjá Friðriki Skúlasyni ehf., segir vírusinn ekki skemma skrár heldur búa til nýjar og rugla ýmsar stillingar í tölvum sem notast við Windows-stýrikerfið.
Bontchev segir að vírusinn hafi ekki sömu útbreiðslumöguleika og ástarormurinn sem olli tjóni í tölvum víða um heim fyrir nokkrum vikum. Vírusinn fjölfaldar sig og getur hægt á vefþjónum með því að senda fjölda tölvuskeyta úr smitaðri tölvu. Þá breytir hann heiti á frumstillingarskjali í tölvum sem notast við Windows 98, 2000 og NT-stýrikerfið. Vírusinn skemmir ekki neitt heldur reynir að fela tæki sem hægt er að nota til að finna hann. Bontchev segir að hægt sé að smita allar tölvur þar sem viðhengi tölvupósts birtist sem táknmynd sem hægt er að smella á til að opna það. En þó verður tölvan að notast við Windows-stýrikerfið en tölvupóstsforritin geta verið margvísleg, s.s. Outlook, Outlook Express, Eudora, Netscape o.fl. Vírusinn hefur svo þrjár leiðir til þess að fara úr smitaðri tölvu til að smita fleiri tölvur, með Outlook 98 eða 2000, um sameiginleg net t.d. hjá fyrirtækjum þar sem margar tölvur notast við sameiginlegt C-drif, svo og á irkinu, segir Bontchev. Hann segir að vírusvarnarforrit hjá Friðriki Skúlasyni taki á vírusnum. Hægt er að fá nánari upplýsingar um vírusinn á vef fyrirtækisins F-Secure.