Filippseyskir saksóknarar hafa kært fyrrum nemanda í tölvuforritun, en hann er grunaður um að hafa sleppt lausum ástarorminum svonefnda, tölvuveirunnar sem lamaði tölvupóstskerfi víða um heim í síðasta mánuði. Dregist hefur að kæra Onel de Guzman, 23 ára, þar sem lögmenn rannsóknarlögreglu hafa farið ofan í saumana á sönnunargögnum og hvaða lög nái yfir athæfið. Þar til Joseph Estrada forseti undirritaði ný lög í síðustu viku, sem taka á rafrænni verslun og tölvuþrjótaárásum, hafa filippseysk lög ekki tekið á tölvuglæpum.
Það er hins vegar ekki hægt að kæra de Guzman samkvæmt nýju lögunum þar sem þau eru ekki afturvirk. Þess í stað er tölvuþrjóturinn kærður fyrir hefðbundnari glæpi, s.s. þjófnað og brot á lögum sem jafnan er beitt þegar um krítarkortasvindl er að ræða, að því er Federico Opinion, yfirmaður rannsóknarlögreglu, greindi frá. Hann segir að hámarks refsing fyrir brot de Guzmans sé 20 ára fangelsisvist. De Guzman, sem hefur stundað nám við tölvuskóla á Filippseyjum, hefur viðurkennt að hann gæti hafa sleppt vírusnum lausum fyrir slysni en neitar að svara því hvort hann hafi samið vírusforritið. Hann náði ekki að útskrifast fyrr á árinu þar sem kennarar hans við skólann höfnuðu lokaverkefninu sem var í formi hugbúnaðar sem stelur lykilorðum á Netinu, en það er eitt af því sem ástarvírusinn gerir. Ástarvírusinn, sem sleppt var lausum 4. maí sl., fjölfaldaði sig á skammri stundu með því að senda afrit af sjálfum sér í tölvupósti. Við þetta skapaðist ofurálag á tölvupóstskerfi fyrirtækja víða um heim og tjónið er talið nema allt að tíu milljörðum dollara, eða 770 milljörðum íslenskra króna. Saksóknarar á vegum dómsmálaráðuneytisins munu nú taka ákvörðun um það hvort sönnunargögn rannsóknarlögreglu gegn de Guzman séu nægileg til þess að hægt sé að höfða mál á hendur honum.