Tölvuþrjótur stefndi öryggi geimfara í bandarískri geimferju í voða árið 1997 með því að skapa yfirálag á samskiptakerfi Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, að því er kemur fram í fréttum BBC í dag. Í þann mund sem geimferjan lagðist að rússnesku geimstöðinni Mir tókst tölvuþrjóti að komast inn í þann hluta tölvukerfis NASA sem fylgdist með hjartslætti, púls og heilsufari geimfaranna um borð. Brugðið var á það ráð að ná sambandi við geimfarana um samskiptakerfi Mir. Í skýrslunni þar sem greint er frá þessu segir að rúmlega 500.000 árásir tölvuþrjóta hafi verið gerðar á NASA á undanförnum árum.