Tvítugur karlmaður handtekinn fyrir árásir á tölvur NASA

Tvítugur karlmaður var handtekinn í New York í Bandaríkjunum í dag, grunaður um að brjótast inn í tvær af tölvum bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA, að því er kemur fram á fréttavef Reuters. Maðurinn mun hafa notað aðra tölvuna til að hýsa spjallrásir á Netinu þar sem tölvuþrjótaárásir voru ræddar. Raymond Torricelli var kærður fyrir fimm atriði; honum hafði einnig tekist að stela aðgangsorðum inn í tölvukerfi tveggja háskóla og krítarkortanúmerum og kaupa út á þau fyrir um 10.000 dollara.

Í skjölunum þar sem ákæruatriðin eru tilgreind er Torricelli sakaður um að vera höfuðpaur hóps tölvuþrjóta, "#conflict", en hann er sagður hafa notað nafnið "rolex" á Netinu. Einnig kemur fram að hann hafi notað tölvuna heima hjá sér árið 1998 til að brjótast inn í tvær af tölvum NASA í Kaliforníu. Þá segir að það hafi kostað NASA nokkur þúsund dollara að gera viðeigandi endurbætur eftir innbrotið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert