Árásum tölvuþrjóta fer fjölgandi og er útlit fyrir að þær verði tvöfalt fleiri á þessu ári en því síðasta, samkvæmt könnun rannsóknarstofnunar sem sérhæfir sig í öryggi á Netinu. Rannsóknarstofnun við hugbúnaðardeild Carnegie Mellon-háskóla í Bandaríkjunum, CERT, hafa borist 35.000 tilkynningar um árásir á þessu ári en það eru fleiri árásir en allt árið í fyrra, að því er segir í frétt BBC.
Verði árásirnar áfram jafn tíðar gæti fjöldi þeirra náð 46.000 sem er ríflega tvöfalt fleiri tilvik en þau 21.756 sem tilkynnt voru á síðasta ári. Tilvikin eru tilkynnt af fyrirtækjum eða samtökum sem verða fyrir því að brotist er inn í tölvukerfi, þeim sendur tölvuormur í tölvupósti, veirur eða verða fyrir annars konar árásum. Þá hefur CERT einnig varað við því að færst hefur í vöxt að hugbúnaður sé viðkvæmur fyrir árásum, þ.e. að algengara er að hann hafi í sér svonefndar öryggisgöt. Það sem af er árinu hefur CERT orðið vart við ríflega 1.800 slík göt sem er næstum því tvöfalt meira en allt árið í fyrra. Talsmenn CERT gátu ekki sagt til um hvort þessi aukni fjöldi væri tilkominn vegna þess að búin væri til viðkvæmari hugbúnaður en áður eða hvort starfsmenn rannsóknarstofnunarinnar væru meira vakandi fyrir götunum en áður. Á síðastliðnum mánuðum hefur netöryggi verið ógnað að nokkrum skæðum tölvuormum, s.s. Code Red og Nimda. Báðir ormarnir nýta sér öryggisgöt í forritum Microsoft.