Reynt að plata tölvunotendur til þess að eyða skrá

Svo virðist sem netnotendur hafi fengið tilkynningar um tölvuveiru, sem er sögð fela sig í skránni SULFNBK.EXE og geta valdið skaða í tölvum. Hins vegar er ekki hægt að finna SULFNBK.EXE með veiruvarnarforritum því um er að ræða stýrikerfisskrá og ef henni er eytt getur stýrikerfi tölva hrunið, að því er fram kemur á vefsvæði Kaspersky Anti-Virus á Íslandi. Segir að rússneska veiruvarnarfyrirtækið Kaspersky Labs hafi greint frá SULFNBK.EXE og sagt að um hættulega veiru væri að ræða. Sagt er að veiran geti hafið skemmdaraðgerðir 1. júní.

Þá kemur fram að SecurityPortal.com hafi fengið skrána í hendur og þangað megi rekja upphaf gabbsins, en ástæðan er talin vera sú að vélin með þessa skrá reyndist vera sýkt af MAGISTR-veirunni. "Það ítrekast að SULFNBK.EXE er ekki vírus þótt í einhverjum tilfellum geti hún verið sýkt eins og aðrar skrár í tölvum ef einhver veira er fyrir hendi. Það má ekki undir neinum kringumstæðum eyða þessari skrá heldur skal, ef grunur um sýkingu er fyrir hendi, láta veiruvarnarforrit skanna vélina og gera viðeigandi ráðstafanir eftir því," segir á vefsvæði Anti-Virus á Íslandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert