Tvö íslensk verkefni hlutu verðlaun Evrópska skólanetsins

Tvö íslensk verkefni hlutu verðlaun Evrópska skólanetsins um bestu notkun á upplýsingatækni í skólastarfi. Annað verkefnið er eftir Salvöru Gissurardóttur, kennara við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, en hitt er eftir Maríu B. Kristjánsdóttur og Sigurlaugu Kristmannsdóttur, kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hátt í 800 verkefni bárust í keppnina og komust 16 þeirra í úrslit.

Verkefni Salvarar er vefur fyrir námskeiðið Nám og kennsla á Netinu sem hún kennir við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. Sá vefur varð í 4. til 12. sæti í aðalkeppninni.

Verkefni Maríu og Sigurlaugar hreppti fyrsta sæti í flokki raungreinaverkefna. Um er að ræða vef sem notaður er við kennslu í líffræði. Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur undanfarin fjögur ár tekið þátt í þróunarskólaverkefni á vegum menntamálaráðuneytisins.

Höfundum íslensku verkefnanna var boðið til Stokkhólms þar sem þeir tóku við verðlaununum í gamla þinghúsinu 21. nóvember sl.

Samkeppnin fór fram í tengslum við eSchola 2002 sem var viðburður sem Evrópska skólanetið stóð að sl. vor. Í fyrra hreppti íslenskt verkefni þriðju verðlaun í þessari keppni. Verðlaunasamkeppni eSchola 2003 verður haldin 7. apríl til 9. maí og gefst þá kostur á að senda inn verkefni.

Vefur Sigurlaugar og Maríu

Vefur Salvarar

Evrópska skólanetið

Upplýsingar um verðlaunasamkeppnina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert