Bandarískur háskóli fær afsökunarbeiðni frá samtökum hljómplötuútgefanda

Penn State háskóli í Bandaríkjunum hefur fengið afsökunarbeiðni frá samtökum bandarískra hljómplötuútgefanda, RIAA, eftir að samtökin sendu háskólanum bréf þar sem þess var krafist að vefsíða, þar sem dreift væri tónlist með listamanninum Usher, yrði tekin niður og tónlistarskránum eytt. Í ljós kom að hvergi á neti skólans var að finna illa fengna tónlist, en hins vegar starfar þar vísindamaðurinn Peter Usher og á vefnum mátti finna söng um Swift, gammageisla-gervitunglið flutt af nokkrum stjarnfræðingum.

Leitarvélar RIAA, sem leituðu m.a. eftir leitarskilyrðunum “Usher” og “mp3” samtímis, fundu söng stjarnfræðinganna og var samstundis gengið út frá því að um væri að ræða tónlist með flytjandanum Usher. Samtökin sendu frá sér harðort bréf í kjölfarið, þar sem þess var krafist að tónlistinni yrði eytt og síðan tekin niður í krafti DMCA höfundarréttarlaganna, sem sett voru fyrir örfáum árum. Bréfið vakti mikla athygli innan skólans, þar sem jafnvel var búist við því að aftengja þyrfti netþjóna skólans rétt fyrir prófalotu. Í afsökunarbréfinu frá samtökum hlómplötuútgefanda kemur fram, að afleysingastarfsmenn hafi sent hótunarbréfið og að slíkt eigi ekki að geta komið fyrir aftur.

Tilvikið er það fyrsta þar sem opinbert verður að samtökin hafi sent frá sér bréf byggð á misskilningi, DMCA lögin hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir að vera of ströng og gefa höfundarrétthöfum of frjálsar hendur varðandi aðgerðir gegn höfundarréttarbrotum. Stutt er síðan hljómplötuútgefendur lögsóttu fjóra bandaríska háskólanema fyrir að dreifa tónlist um innranet háskóla síns, en einnig hafa samtökin sent viðvaranir á notendur skiptahugbúnaða á borð við Kazaa og Grokster.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert