Stemma verði stigu við ofnotkun tölvupósts í fyrirtækjum

Óskar Magnússon, forstjóri Og Vodafone, telur að með einhverjum ráðum verði að stemma stigu við ofnotkun tölvupósts innan veggja fyrirækja. "Ein leiðin í því sambandi er að banna alveg notkun hans og finnst mér sú leið vel koma til greina sérstaklega tímabundið á meðan verið er að ná tökum á notkuninni," er haft eftir Óskari á vefsvæði ATV.

Þá segir Óskar: "Um tölvupóst má annars segja það að hann er afar hentugur til styttri skeytasendinga, en jafn illa fallinn til lengri skoðanaskipta eins og mönnum hættir til að nota hann til. Þá er gott að átta sig á því, að jafnvel færustu rithöfundur og ýmsir ritvanir og pennafærir menn koma stundum ekki hugsunum sínum og skoðunum nægileg vel frá sér. Hvað má þá segja um þá sem ekki hafa þá hæfileika? Misskilningur er sennilega algengasta orðið sem notað er um tölvupóst. Þegar upp er staðið er tölvupóstur seldur undir nákvæmlega sömu lögmál og flest annað: Góður í hófi. Vandinn er að halda notkuninni þar," er haft eftir Óskari á ATV-vefsvæðinu.

Þá kemur fram að aðrir forstjórar íslenskra stórfyrirtækja, sem rætt var við, taka hins vegar dræmt í að banna notkun tölvupósts innan fyrirtækja. Bjarni Ármannsson, bankastjóri Íslandsbanka, kveðst ekki hafa trú á banni á þessu sviði. Hann segir Íslendinga fremur dula en opinskáa og því henti þessi samskiptamáti vel. Einar Benediktsson forstjóri Olís, tekur í sama streng og kveðst ekki hafa hugleitt að banna tölvupóst, segir á ATV-vefsvæðinu. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir ennfremur að tölvupóstinn hafi mikla kosti. Hann segir að miðað við eigin not sem stjórnanda verði til gríðarlegur tímasparnaður við notkun tölvupósts.

"Þjónustufyrirtækjum - og sveitarfélögum - er mikils um vert að svara erindum íbúa á sem bestan og sneggstan hátt. Flest erindi íbúa, sem lögð eru fram augliti til auglitis, taka um 20 mínútur eða lengri tíma," segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar meðal annars á ATV-vefsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka