Áform um kennslu í tölvuveirusmíði harðlega gagnrýnd

Áform um að kenna smíði tölvuveira í áströlskum háskóla voru harðlega gagnrýnd á ráðstefnu sérfræðinga í tölvuveiruvörnum sem haldin var í Sydney í Ástralíu um helgina. Vesselin Bontchev, sem starfar hjá Friðrik Skúlasyni ehf. í Reykjavík, sagði m.a. á ráðstefnunni, að það væri hlutverk lögregluyfirvalda en ekki kerfisfræðinga að stöðva þá sem dreifa tölvuveirum.

Að því er kemur fram í blaðinu The Australian sagði Bontchev á ráðstefnunni, að hlutverk kerfisfræðinga væri að hindra útbreiðslu hugarsmíða þessara glæpamanna en ekki að stöðva glæpamennina sjálfa. Og til þess að geta þjónað því hlutverki þyrftu sérfræðingarnir að kunna að skilgreina veirur, skrifa forrit til að eyða þessum veirum og vita hvernig eigi að stöðva kerfisárás. „Þeir þurfa ekki að vita hvernig veiruhöfundar hugsa og starfa," sagði Bontchev.

Ken Barker, yfirmaður tölvunarfræðideildar háskólans í Calgary í Kanada, hefur lagt til að kennt verði námskeið um tölvuveirusmíði til að gefa væntanlegum kerfisfræðingum innsýn í hugarheim veirusmiða. Þetta sagði Bontchev að væri fásinna, að sögn The Australian. „Það er ekki til nein góðkynja veira. Ef virt menntastofnun viðurkennir veirusmíði mun fjöldi ungs fólks segja að þau stundi „rannsóknarvinnu" þegar það er í raun að fremja rafræn skemmdarverk."

Hann sagði að virt fyrirtæki sem sérhæfa sig í veiruvörnum hafi þá stefnu að ráða ekki þá í vinnu, sem hafa lagt stund á veirusmíði. „Við störfum í umhverfi þar sem traust skiptir öllu máli. Það skiptir ekki máli hvort veirusmiðir eru enn við sama heygarðshornið eða hafa séð að sér. Um leið og veira hefur verið búin til og henni sleppt lausri er hún til um aldur og ævi."

Þá sagði Bontchev að það væri mun erfiðara að skrifa góða veiruvörn en búa til tölvuveiru.

Frétt The Australian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert