ESB bannar ruslpóstsendingar

Lög Evrópusambandsins, sem banna ruslpóstsendingar, hafa tekið gildi. Samkvæmt lögunum er óheimilt að senda auglýsingapóst eða textaskilaboð nema móttakandi hafi samþykkt að taka á móti upplýsingum. Fyrirtæki sem senda óumbeðinn auglýsingapóst eða textaskilaboð geta átt von á háum sektum. Þá er hægt að höfða mál á hendur þeim undir ákveðnum kringumstæðum, að sögn ananova.com.

Hægt er að sekta fyrirtæki eða einstaklinga fyrir ruslpóstsendingar um 640 þúsund krónur fyrir fyrsta brot. Evrópusambandið hefur sagt lögin skref í rétta átt í baráttu gegn ruslpósti sem veldur fjölmörgum tölvunotendum og fyrirtækjum ama. Fyrirtæki sem hafa skapað tengsl við notendur eru undanskilin lögunum. Hins vegar er flest sem bendir til þess að ruslpóstsendingar til evrópskra netnotenda haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist þar sem flestar sendingar koma utan Evrópusambandsins.

Talið er að ruslpóstur sé í kringum helmingur þess pósts sem dreift er um Netið, en ruslpóstur var í kringum 8% alls tölvupósts fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert