Uppfærslu á Windows XP seinkar

Ný uppfærsla á Windows XP stýrikerfinu verður tilbúin í ágúst, tveimur mánuðum síðar en áætlað var. Uppfærslunni, sem nefnist Service Pack 2, er ætlað að gera stýrikerfið öruggara fyrir árásum tölvuþrjóta og tölvuveira. Á fréttavef BBC er haft eftir hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft, að tekið hafi lengri tíma en áætlað var að tryggja öryggi kerfisins.

Sérfræðingar segja að uppfærslan sé mikilvægasta breyting á Windows XP frá því sú útgáfa af Windows-stýrikerfinu var sett á markað árið 2001. Þar verður stoppað í ýmis öryggisgöt en einnig hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á hugbúnaðnum til að tryggja aukið öryggi netkerfa og tölvupósts og verja minni.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að sækja hugbúnaðinn án endurgjalds á Netið. Hann er fyrirferðarmikill, um 70 MB fyrir einkatölvunotendur.

Microsoft hefur lagt áherslu á að auka öryggi stýrikerfisins eftir að ormar á borð við Blaster og MyDoom gátu nýtt sér öryggisgalla í Windows.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert