Eignaðist barn eftir eggjastokkaígræðslu

Ouarda Touirat með dóttur sína, Tamöru.
Ouarda Touirat með dóttur sína, Tamöru. AP

Belgískir læknar tilkynntu í morgun, að kona hefði eignast heilbrigt barn sjö árum eftir að hluti úr eggjastokki hennar var fjarlægður vegna krabbameinsmeðferðar, frystur, og síðan græddur í konuna aftur.

Konan, sem er 32 ára, eignaðist nærri 16 marka dóttur í gærkvöldi á Cliniques Universitaires Saint-Luc í Brussels, samkvæmt tilkynningu sem birtist í breska læknablaðinu The Lancet. Að sögn talsmanns sjúkrahússins hefur móðirin, sem heitir Ouarda Touirat, þegar gefið dóttur sinni nafnið Tamara.

Læknahópurinn var undir stjórn Jacques Donnez, hjá Kaþólska sjúkrahúsinu í Louvain. Læknarnir segja að bjóða ætti öllum ungum konum, sem greinast með krabbamein, upp á þessa meðferð svo þær eigi möguleika á að eignast börn síðar. Hún gefi einnig möguleika á að lengja þann tíma sem konur geti átt börn. Þannig sé hægt að fjarlægja hluta úr eggjastokknum og frysta hann, þíða hann síðar og græða aftur í konur og gera þeim kleift að eignast börn á fimmtugs- og sextugsaldri og jafnvel eldri.

Geislameðferð vegna krabbameins getur haft áhrif á frjósemi sjúklinga vegna þess að hún skaðar frumur sem framleiða sæði og egg. Hægt er að geyma sæði karlmanna og nota það síðar við tæknifrjóvgun og einnig er hægt að taka egg úr konum og geyma þau. Til þess þurfa konur þó að gangast undir hormónameðferð sem getur verið skaðleg krabbameinssjúklingum. Einnig er oft erfitt að frjóvga egg sem hafa verið fryst.

Touirat greindist með hvítblæði þegar hún var 25 ára og hafði sjúkdómurinn breiðst út. Fimm vefjasýni voru tekin úr hægri eggjastokk hennar og þau síðan fryst. Touirat gekkst síðan undir víðtæka lyfjameðferð sem stóð í sex mánuði og leiddi til þess að hún blæðingar stöðvuðust. Síðan gekkst hún undir geislameðferð. Rannsóknir sýndu í kjölfarið að eggjastokkarnir voru hættir að starfa.

Árið 2003, þegar Touirat hafði unnið bug á krabbameininu, var frysti vefurinn þíddur og græddur í hana við hliðina á hægri eggjastokknum sem hafði visnað. Viku síðar höfðu myndast háræðar umhverfis ígrædda vefinn. Fimm mánuðum síðar hófust blæðingar á ný og eftir 11 mánuði varð Touirat vanfær með eðlilegum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert