Fólk sem sífellt verður fyrir áreiti af völdum tölvupósts og símhringinga verður fyrir „greindarvísitölufalli“ sem er rúmlega tvöfalt meira en þeir sem reykja maríjúana verða fyrir, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem gerð var fyrir tölvufyrirtækið Hewlett Packard. Er varað við aukinni hættu á að fólk fái svonefnt „upplýsingaæði“ er lýsi sér með þeim hætti að fólk verði háð tölvupósti og sms.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en rannsóknin var gerð við Sálfræðirannsóknarmiðstöðina í Bretlandi.
Í ljós kom að 62% þátttakenda í rannsókninni las vinnutengdan tölvupóst þegar þau voru heima hjá sér eða í fríi. Segir HP að þótt ný tækni geti aukið afköst verði fólk að læra að slökkva á tölvum og símum.
Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós, að of mikil tækjanotkun dró úr greind þátttakenda. Greindarvísitalan lækkaði um 10 stig hjá þeim sem urðu fyrir áreiti af tölvuskeytum sem bárust og símum sem hringdu. Er þetta rúmlega tvöfalt meiri lækkun en komið hefur fram í fyrri rannsóknum á áhrifum maríjúanareykinga.
Yfir helmingur þátttakenda, sem alls voru 1.100, kváðust alltaf svara tölvuskeytum „samstundis“ og viðurkenndu 21% að þau myndu trufla fund til að svara skeyti. Glenn Wilson, sálfræðingur við Háskólann í London, er stjórnaði rannsókninni, segir að ómeðhöndlað upplýsingaæði geti dregið úr einbeitingu fólks. Að vera sífellt að beina athyglinni frá verkefnum í því skyni að svara tölvuskeytum eða sms hafi svipuð áhrif á hugann og svefnleysi.