Mismunandi viðbrögð í heila samkynhneigðra og gagnkynhneigðra karla

Heilinn í samkynhneigðum körlum bregst á sama hátt og heilinn í konum við lykt af efni unnu úr karlkynshormónum, að því er segir í niðurstöðum nýrrar rannsóknar er birtar eru í nýjasta hefti Proceedings of the National Academy of Sciences.

Vísindamenn við Karolinska institutet í Stokkhólmi unnu rannsóknina, og fór hún þannig fram að gagnkynhneigðir karlar og konur og samkynhneigðir karlar voru látin þefa af efnum sem voru gerð úr kynhormónum karla og kvenna. Þessi efni eru talin vera svonefnd ferómón, sameindir sem vitað er að vekja kynferðisleg viðbrögð eða varnarviðbrögð hjá mörgum dýrum. Deilt hefur verið um hvort menn bregðist við ferómónum, en bandarískir vísindamenn greindu frá því árið 2000 að þeir teldu sig hafa fundið gen sem líklega stjórni ferómónviðtaka í nefi manna.

Í sænsku rannsókninni kom í ljós að þegar þátttakendur þefuðu af karlkynhormóni varð vart viðbragða í þeim hluta heilans sem hefur með kynlíf að gera í konunum og samkynhneigðu körlunum, en ekki í gagnkynhneigðu körlunum.

Sandra Witelson, heilasérfræðingur við læknadeild McMaster-háskóla í Hamilton í Kanada, segir að niðurstöður sænsku rannsóknarinnar sýni tvímælalaust að kynhneigð eigi sér að einhverju leyti líkamlegar orsakir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka