„Stundaglasavöxtur" dregur úr líkum á hjartasjúkdómum

Kvikmyndastjarnan Catherine Zeta-Jones er hefur vöxt sem virðist draga úr …
Kvikmyndastjarnan Catherine Zeta-Jones er hefur vöxt sem virðist draga úr líkum á hjartasjúkdómum. AP

Vísindamenn við Forvarnastofnun Kaupmannahafnarháskóla hafa komist að þeirri niðurstöðu að konur með bogadregnar vaxtarlínur eru líklegri til að verða langlífari en grannar kynsystur þeirra.

Svo virðist sem konur með breiðar mjaðmir fái síður hjartasjúkdóma en grannar konur. Vísindamennirnir birta niðurstöður sínar í tímaritinu Obesity Research og segja að mjaðmafita innihaldi náttúrulegt bólgueyðandi efni, svonefnt adiponectin, sem kemur í veg fyrir að slagæðar bólgni og stíflist.

Fram kemur á fréttavef BBC, að á árunum 1987 til 1988 rannsökuðu dönsku vísindamennirnir 3000 konur og karla á aldrinum 35-65 ára. Hæð fólksins var mæld og það var vegið og reiknuð út svonefnd líkamsmassavísitala. Rúmum áratug síðar voru þessar upplýsingar bornar saman við heilbrigðisskýrslur til að kanna hve margar kvennanna hefðu fengið hjartasjúkdóma og hve margar væru látnar.

Þegar konur, sem höfðu breiðustu mjaðmirnar, voru bornar saman við þær sem höfðu grennstu mjaðmirnar, kom í ljós að dánartalan var 87% lægri. Einnig var tíðni hjartaáfalla 86% minni og æðasjúkdóma 46% minni.

Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að bæði karlar og konur með grannar mjaðmir séu líklegri til að fá sykursýki, háan blóðþrýsting og gallblöðrusjúkdóma. Danska rannsóknin bendir hins vegar ekki til þess að mjaðmamál karla tengist hjartasjúkdómum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert