Þeir sem hjóla í umferðinni í Kaupmannahöfn verða fyrir svo mikilli mengun vegna útblásturs frá bílum að hún mælist í blóðinu eftir aðeins tveggja tíma hjólatúr. Ný rannsókn frá dönsku umhverfisstofnuninni sýnir þetta að því er fréttastofan Ritzau greinir frá.
Fimmtán manns voru látnir hjóla 20 km á dag í miðbæ Kaupmannahafnar í fimm daga.Þá voru þau látin hjóla innanhúss á rannsóknarstofu í jafnlangan tíma. Blóðsýni voru tekin reglulega úr fólkinu á báðum stöðum og kom í ljós að hvítu blóðkornin skaðast þrefalt meira ef hjólað er úti í umferðinni.
Umhverfisstofnunin segir að á Kaupmannasvæðinu megi rekja um 780 dauðsföll á ári óbeint til mengunar sem valdi hjarta- og æðasjúkdómum, öndunarfærasjúkdómum og krabbameini, að því er fram kemur í frétt Ritzau.