Samsung kynnti 16 gígabæta minnisflögu í dag; bylting í vistun gagna

Nýja 16 gígabita NAND minnisflagan frá Samsung sem kynnt var …
Nýja 16 gígabita NAND minnisflagan frá Samsung sem kynnt var í dag. AP

Suður-kóreska hátæknifyrirtækið Samsung svipti í dag hulunni af fyrstu 16 gígabæta NAND minnisflögunni. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir, að minnisflagan muni ryðja brautina fyrir nýjar leiðir í varðveislu gagna.

Nýja minnisflagan er sú minnsta sinnar gerðar en rúmar jafnframt mikið gagnamagn. Er minnisflagan sögð auðvelda varðveislu mikils magns gagna í litlum tækjabúnaði á borð við stafrænar myndavélar.

Á eina slíka flögu er hægt að vista 200 árganga af 40 blaðsíðna dagblaði, 8.000 lög á stafrænu formi eða 32 klukkustundir af DVD kvikmyndum í fullri lengd.

Í fréttatilkynningu Samsung kemur jafnframt fram, að þetta sé í fyrsta sinn sem minniflaga búi yfir svokallaðri nanótækni, en í henni eru 16,4 milljarða smára, sem eru á stærð við mannshár.

„Minni á borð við þetta opnar nýjar leiðir í tækniheiminum,“ sagði Hwang Chang-Gyu, yfirmaður tæknideildar Samsung sem þróaði minnisflöguna. Hann bætti við, að NAND minnisflagan muni leysa af hólmi aðrar lausnir í vistun gagna, sér í lagi þær sem notaðir eru í smáum raftækjum á borð við stafrænar myndavélar.

Samsung, sem er stærsti framleiðandi vinnsluminnis (DRAM) í tölvum, áætlar að hefja framleiðslu á 16 gígabæta NAND minnisflögunni á síðari helmingi næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka