Vísbendingar um að spænska veikin hafi átt uppruna í fuglum

Spænska veikin, sem lagði 50 milljónir manna að velli á árunum 1918-19, stafaði væntanlega af afbrigði inflúensuveiru sem átti uppruna sinn í fuglum. Vísindamenn hafa komist að raun um að þessi veira hefur tekið svipuðum stökkbreytingum og H5N1 fuglaflensuveiran sem nú gengur í Asíu og hefur valdið dauða a.m.k. 65 manna.

Á fréttavef BBC segir, að vísindamenn, sem rannsakað hafa veiruna, hafi skrifað grein í tímaritið Nature. Þar komi fram að þessi niðurstaða undirstriki þá hættu, sem stafi af núverandi fuglaflensuveiru.

Í annarri ritgerð, sem birtist í tímaritinu Sciece, er upplýst að bandarískir vísindamenn hafa ræktað veiruna frá 1918 í músum. Veiran er geymd hjá bandarísku sóttvarnastofnuninni og eru miklar öryggisráðstafanir viðhafðar. Vonast er til að hægt sé að gera tilraunir á veirunni til að auka skilning á því hvers vegna hún var jafn smitandi og raun bar vitni.

Tekin voru sýni úr líkamsleifum fólks, sem lést af völdu spænsku veikinnar og þannig var hægt að endurskapa veiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert