Líklegt talið að Windows verði ókeypis

Bill Gates, forstjóri Microsoft. .
Bill Gates, forstjóri Microsoft. . Reuters

Microsoft tölvufyrirtækið íhugar nú að bjóða stýrikerfið Windows ókeypis. Fylgir sá galli gjöf Njarðar að auglýsingar fylgja með. Segir danska dagblaðið Börsen frá þessu. Verði af þessum ráðagerðum er það nýjung á markaði með stýrikerfi, þ.e. að fjármagna framleiðslu þeirra með auglýsingasölu, í stað þess að selja þau í verslunum.

Tæknifréttavefurinn CNET.com segist hafa í höndum yfirlýsingu um þetta frá Microsoft. Vefurinn segir Microsoft stafa ógn af því að hægt sé að nálgast hugbúnað á Netinu fólki að endurgjaldslausu, þó með auglýsingum, og einnig af því að fólk sé í síauknum mæli að komast hjá því að kaupa hugbúnað í verslunum. Því virðist sá kostur blasa við að fara sömu leið, þ.e. að bjóða hugbúnað ókeypis með áhangandi auglýsingum.

Tekjur af viðskiptum og auglýsingum á Netinu aukast sífellt en hagnaður af sölu á hugbúnaði í verslunum minnkar að sama skapi. Segir CNET.com að eina ljónið í veginum, að mati Microsoft, sé hættan á því að fólki finnist óþolandi að auglýsingar skjóti upp kollinum hverju sinni sem það noti tölvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert