Tveir stórir hlutar skrokksins á Titanic, sem fundust á hafsbotni í ágúst, benda til að skipið hafi sokkið hraðar en hingað til hefur verið talið, að því er vísindamenn segja. Hlutarnir tveir eru út botni skrokksins, sem ekki fannst þegar flakið kom fyrst í leitirnar 1985.
Eftir að botnhlutinn losnaði frá skrokknum rifnuðu skutur og stafn í sundur. Stafninn gat áfram flotið og þar var stór hópur fólks, en vísindamenn telja að stafninn hafi sokkið til botns aðeins um fimm mínútum eftir að skuturinn sökk.
Fyrri rannsóknir hafa bent til að Titanic hefði einungis brotnað í tvo hluta, stafn og skut, og þannig var slysið sýnt í frægri kvikmynd 1997. Talið hefur verið að skipið hafi verið allt að 20 mínútur að sökkva eftir að það rifnaði í sundur. Nú virðist sem þetta hafi tekið fyrr af.
Botnhlutarnir tveir fundust um hálfan kílómetra frá stefninu og skutnum. Það var Sögusjónvarpið bandaríska sem kostaði leiðangurinn sem fann hlutana. Titanic-sérfræðingar komu saman í gær til að ræða þessa nýju uppgötvun, en sjónvarpsstöðin sýnir nýja heimildamynd um hana 26. febrúar.
Botnhlutarnir eru báðir um 12 metra breiðir og 27 metra langir. Þeir mynduðu eina heild áður en þeir rifnuðu af skrokknum. Talið hafði verið að þeir hlutar skrokksins sem ekki höfðu fundist hefðu tæst í sundur. „Það hefur aldrei verið hægt að gefa nákvæma mynd af því hvernig Titanic brotnaði og sökk,“ segir Parks Stephenson, Titanic-sagnfræðingur sem tók þátt í fundinum í gær.
Robert Ballard, sem fann stærstan hluta skrokksins 1985 á 13.000 feta dýpi um 380 mílur suðaustur af Nýfundnalandi, þykir ekki mikið til koma um nýju uppgötvanirnar. „Þeir fundu brot. Það er aldeilis. Er ég undrandi? Nei. Þegar maður fer þarna niður kemur í ljós alls konar drasl úti um allt. Skipið lenti á ísjaka og sökk. Svo skulum við gleyma þessu.“