Nýjasta tækni veldur mörgum Bretum streitu og leiðir til drykkju

Ný samskiptatækni á borð við sjálfvirka símsvara, farsíma og tölvur sem frjósa hefur leitt til aukinnar drykkju og reykinga, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var í Bretlandi. Rúmlega þriðji hver karlmaður og fjórða hver kona sem þátt tók í könnuninni sagðist bregðast við streitu með áfengisneyslu.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en það voru góðgerðarsamtökin Developing Patient Partnerships (DDP) sem gerðu könnunina. Þátttakendur voru um eitt þúsund. Þar af sögðust 27% karla og 23% kvenna kveikja sér í sígarettu þegar þau lentu í erfiðleikum með tæki á borð við tölvur og farsíma.

Næstum því þriðji hver þátttakandi í könnuninni sagði að tæknivandræði væru mikill streituvaldur. En dauðsfall og skilnaður voru þó nú sem fyrr helstu streituvaldarnir. DDP hyggjast gefa út bækling með leiðbeiningum um hvernig bregðast megi við streitu.

Samtökin segja að mikilvægt sé að koma á umræðu um streitu til að draga úr þeim fordómum sem ríki gagnvart fólki sem þjáist af henni. En aðeins 23% þátttakenda í könnuninni kváðust myndu ræða við yfirmann sinn um streitu, og fjórðungur sagðist ekki myndu taka sér frí úr vinnu vegna streitu af ótta við viðbrögð yfirmanna sinna.

Af þátttakendum í könnuninni töldu 64% að streita væri sjúkdómur, sem hún er ekki, þótt hún geti valdið sjúkdómum á borð við þunglyndi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert