Lélegt netsamband við útlönd vegna misbresta í rekstri FARICE-sæstrengsins, er farið að hamla verulega starfsemi fjölmargra fyrirtækja hér á landi, m.a. í hátækniiðnaði og fjármálaþjónustu. Stöðugleiki í fjarskiptum ætti að vera algert forgangsmál stjórnvalda og undarlegt að ekki skuli þegar vera búið að ráðast í umbætur í þessu efni, segir í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaráðs Íslands. Straumhvörf urðu í fjarskiptamálum landsmanna þegar FARICE- sæstrengurinn milli Íslands og Skotlands um Færeyjar var tekinn í notkun. Tilgangurinn var að færa netnotendum meira öryggi en áður þegar síma- og tölvunotendur urðu að treysta á CANTAT-3 sæstrenginn í samskiptum við útlönd. Misbrestur hefur verið á rekstri sæstrengsins og hefur sambandið rofnað ítrekað á síðustu misserum, sem er óviðunandi fyrir fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga, segir í skýrslunni.