Helstu skjáframleiðendur heims leita nú leiða til að bregðast við því að með einföldum hugbúnaði er hægt að breyta nýrri gerðum af LCD tölvuskjáa í snertiskjá. Alla jafna eru snertiskjáir seldir mun hærra verði en venjulegir skjáir og sjá fyrirtækin fram á mikið tekjutap vegna þessa.
Tölvufyrirtæki kaupa jafnan skjái í tölvur frá fáum stórum framleiðendum og þar hefur tíðkast undanfarin ár að framleiða skjái með sömu tækni hvort sem þeir verða síðan seldir sem hefðbundnir flatskjáir eða snertiskjáir.
Allir flatskjáir eru með innbyggða ljósnema til að auðvelda prófanir en síðan eru þeir seldir sem snertiskjáir eða hefðbundnir flatskjáir eftir eftirspurn. Mun hærra verð fæst fyrir snertiskjái og því brenna framleiðendur í minniskubb hugbúnað sem gerir ljósnema hans óvirka. Tiltölulega auðvelt er þó að gera nemana virka aftur með sérstökum hugbúnaði sem dreift hefur verið á Netinu.
Framleiðendur tölvuskjáa sameinuðust um TST-staðla (e. Touch Screen Technology) fyrir flatskjái eftir samningaviðræður helstu framleiðendanna fyrir sex árum. Vildu framleiðendur fyrirbyggja að neytendur þyrftu að velja á milli mismunandi gerða snertiskjáa í framtíðinni.
Ekki er unnt að gera sjónvarpsskjái að snertiskjáum, enda engin búnaður til að taka við snertingunum, en í tölvum er sá búnaður til staðar. Aðeins þarf því að sækja hugbúnað þann á vefsíðu Snella Computers, en leiðbeiningar um innsetningu hans er að finna á vefsíðunni.
Green Screen Manufacturing hafa framleitt grunneiningar fyrir hefðbundna flatskjái í verksmiðjum sínum í Indónesíu og Malaví fyrir Dell, Sanyo, Sony og Sun Computers meðal annarra. Í nóvember 2002 opnuðu þeir stóra verksmiðju í Quam-héraði í Suðaustur-Kína og ákváðu þá að í stað þess að keyra tvö framleiðsluferli samhliða að veðja alfarið á snertiskjái í stórum stíl. Byggðu þeir þá djörfu viðskiptastefnu á samningunum um TST-staðlana og veðjuðu á að innan tíðar myndu flestir tölvuframleiðendur skipta alfarið yfir í snertiskjáatæknina.
Að sögn talsmanna helstu tölvufyrirtækja heims, Dell, IBM og Sony, munu þau bregðast við þessum hugbúnaði frá Snella Coputers með því að þrýsta á framleiðendur um að breyta framleiðsluferli flatskjáa en sérfræðingar segja það ólíklegt vegna hins mikla kostnaðar sem það myndi leiða af sér. Ef fyrirtækin láti verða af því megi reikna með að flatskjáir hækki í verði um tugi ef ekki hundruð prósenta.