Vísindaráðgjafi segir hitastig á jörðinni munu hækka um þrjár gráður

Retuers

Æðsti vísindaráðgjafi bresku stjórnarinnar, sir David King, segir allar líkur á að hitastig á jörðinni muni hækka um þrjár gráður. Slík hækkun geti valdið þurrkum og hungursneyð og ógnað milljónum mannslífa. Er þessi spá byggð á gögnum úr tölvulíkönum.

Sir David sagði í dag að heimsbyggðin verði tafarlaust að grípa til aðgerða til að hamla hækkun hitastigsins, jafnvel þótt líða kunni margir áratugir þar til árangurinn komi í ljós. Jafnvel bjartsýnustu spár hljóði upp á að koltvísýringsmagn í andrúmsloftinu muni verða tvöfalt það sem það hafi verið á tímum iðnbyltingarinnar á 19. öld.

Þetta kom fram í viðtali við sir David í breska ríkisútvarpinu, BBC.

Hann sagði ennfremur að verði ekkert að gert muni fá vistkerfi á jörðinni geta aðlagast þessari hitastigshækkun, og hungursneyð gæti vofað yfir allt að 400 milljónum jarðarbúa, vegna þess að á bilinu 20 til 400 milljónir tonna af kornuppskeru gæti glatast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka