Klámiðnaðurinn gæti ráðið úrslitum í baráttu Blu-ray og HD-DVD

Að sögn Ron Wagners hjá E! sjónvarpsstöðinni virðist sem að …
Að sögn Ron Wagners hjá E! sjónvarpsstöðinni virðist sem að klámiðnaðurinn hafi valið Blu-ray fram yfir HD-DVD diskana. Reuters

Á níunda áratugnum börðust Betamax og VHS hatrammlega um hvor myndbandstæknin myndi ríkja, og það kom til kasta klámiðnaðarins hvor tæknin myndi verða ofan á. Á endanum var það VHS-spólurnar sem sigruðu. Sama virðist vera uppi á teningnum í dag en nú snýst málið um hvaða staðall eigi að ríkja fyrir næstu kynslóð DVD-tækninnar. Baráttan nú stendur á milli svokallaðra Blu-ray diska og HD-DVD diska.

Ron Wagner, yfirmaður tæknimála hjá E! Entertainment Television í Los Angeles, segir að fyrirtæki hans hafi þegar valið Blu-ray diskana. Hann segir fyrirtækið hafa gert það að mestu leyti vegna þess að klámiðnaðurinn þar í borg hafi þótt sú tækni betri heldur en HD-DVD diskarnir.

Wagner segir að þegar hann var viðstaddur ársfund Landssamtaka sjónvarpsstöðva (NAB) í Las Vegas, þá hafi komið fram við fleiri en eina pallborðsumræðu að nokkrir stórir aðilar í klámiðnaðinum hafi valið Blu-ray. Hann segir að rígurinn sem standi á milli Blu-ray og HD-DVD hafi einnig vakið mikla athygli á ársfundi NAB í síðasta mánuði.

„Ef þú skoðar VHS gegn Beta tækninni, þá sérð þú að tæknin sem er mun betri dó út vegna þess að klámiðnaðurinn studdi VHS tæknina,“ sagði hann. „Þær spólur sem voru fjöldaframleiddar á klámmarkaðinum á þeim tíma voru af VHS gerð.“

Talið er að klámiðnaðurinn velti um 57 milljörðum dala á hverju ári um allan heim. Sérfræðingar segja að hann hafi ávallt verið fljótur að ákveða sig og taka af skarið hvað varðar tækninýjungar.

Fyrir leikmenn er ekki að sjá að mikill munur sé á Blu-Ray og HD-DVD við fyrstu sýn. Sérfróðir segja þó að Blu-ray diskar geti tekið meira gagnamagn en verði eflaust dýrari en HD-DVD til að byrja með. Þá er sagt að HD-DVD sé nær núverandi DVD-tækni heldur en Blu-ray tæknin.

Þau fyrirtæki sem styðjast við Blu-ray tækni eru m.a. Sony, Apple, Dell, Hitachi, JVC, Mitsubishi, Panasonic, Pioneer, Philips og Samsung.

Þeir sem berjast fyrir HD-DVD tækni er Toshiba, NEC og Sanyo svo dæmi séu tekin.

Nánari útskýringu á tækninni er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert