Erfðafræðingur, heimspekingur og eggjabóndi hafa lagt höfuðið í bleyti og velt vöngum yfir hinu ævaforna vandamáli: Hvort kom á undan, hænan eða eggið? Niðurstaðan er sú að eggið kom fyrst. Ástæðuna telja þeir að erfðaefni breytast ekki í lifandi dýrum. Því telja menn að fyrsta hænan, sem klaktist út á forsögulegum tímum, hljóti að hafa stökkbreyst á meðan hún var fósturvísir á frumstigi í eggi.
Fréttavefur Sky-fréttastofunnar skýrir frá því, að prófessor John Brookfield, sérfræðingur í þróunarerfðafræði við University of Nottingham á Bretlandi, segi að það sé alveg á hreinu að eggið kom á undan og undir það tóku David Papineau, prófessor við King’s College í London, og eggjabóndinn Charles Bournes.
Papineau er sérfræðingur í vísindaheimspeki og telur hann að fyrsti kjúklingurinn hafi skriðið úr eggi og að það sanni að egg voru til á undan hænum.
Disney var að kynna útgáfu kvikmyndarinnar Chicken Little á mynddiski og stofnuðu til þessara umræðna í kjölfar þess.